Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tvöföld skimun tryggir fæst smit af völdum ferðamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Langflestir þeir ferðamenn sem komust inn í landið smitaðir af COVID-19 gerðu það eftir eina skimun á landamærunum. Þetta er meðal niðurstaðna hóps vísindafólks við Háskóla Íslands sem rannsakaði áhrif mismunandi sóttvarnaraðgerða á landamærunum undir handleiðslu Thors Aspelund prófessors í líftölfræði.

Fæstir kæmust í gegn með tveimur skimunum á Íslandi með fimm daga ferðamannasmitgát á milli eða á landamærunum með sóttkví á milli, að því er fram kemur í skýrslu vísindafólksins.

Sú aðferð tryggir fæst innanlandssmit vegna smitaðra ferðamanna ásamt þeirri að gera tvær skimanir á landamærunum, í heimalandi ferðamanns og á Íslandi með kröfu um PCR vottorð til staðfestingar fyrri skimunar.

Þeirri aðferð verður beitt frá 1. maí fyrir þá farþega sem koma frá gul- og grænmerktum löndum í samræmi við sameiginleg viðmið Evrópusambandsríkja.

Um farþega sem koma frá öðrum löndum gildir áfram reglan um tvær skimanir við komuna til Íslands með fimm daga sóttkví á milli auk þess sem PCR prófs er krafist fyrir brottför.