Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tólf jarðskjálftar yfir þremur að stærð frá miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Jarðskjálfti 3,4 að stærð varð skammt frá Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga skömmu fyrir klukkan tvö í dag. Alls hafa nú tólf jarðskjálftar yfir þremur að stærð mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti.

Á fundi vísindaráðs almannavarna í gær var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að syðsti endi kvikugangsins kunni að liggja upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli. Kvikugangurinn haldi áfram að stækka og því þurfi áfram að gera ráð fyrir að gosið geti á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand vari lengur aukist líkur á gosi.  

ÍSOR setur upp mælistöðvar 

Jarðeðlisfræðingarnir Gylfi Páll Hersir og Egill Árni Guðnason frá Íslenskum orkurannsóknum settu upp tvær mælistöðvar á Reykjanesskaga í gær. Annar mælirinn var settur upp norðan við Grindavík og hinn við Sveifluháls og er gert ráð fyrir að þeir verði þar í tvær vikur. Þessir mælar eru ekki tengdir beint inn á jarðskjálftamælanet Veðurstofunnar, heldur notaðir til rannsókna á jarðskorpuhreyfingum og áhrifum þeirra.

Gylfi Páll segir að gögnum mælanna verði streymt í gegnum ÍSOR til Veðurstofunnar strax og geti staðsett skjálfta með meira öryggi og nákvæmni en áður.

„Við setjum þá líka til þess að taka mið af því að hugsanlega komi gos og við viljum síður að þessir mælar lendi undir hrauni. Þessir eru að mæla bylgjur á svolítið annan hátt, sem er nýjung hér og ekki hefur verið gert áður,“ segir hann.

„Þessir mælar eru í eigu háskólans í Potsdam í Þýskalandi og gögnum verður streymt beint til þeirra. Það verður tvímælalaust viðbætur við þann skilning sem við höfum fram til þessa á jarðskjálftum á þessu svæði.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV