Straumar — Eurovision

Straumar — Eurovision

13.03.2021 - 19:25

Höfundar

Framlag Íslendinga í Eurovision 2021, 10 years með Daða og Gagnamagninu, er frumflutt í Straumum kvöldsins. Í þættinum verður fjallað um Eurovision-fárið sem hefur staðið yfir með hléum frá 1956.

Straumar eru nýir tónlistar- og skemmtiþættir um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum. Lagið 10 years með Daða og gagnamagninu er frumflutt undir lok fyrsta þáttar sem sýndur er eftir fréttir í kvöld. Lagið fjallar um samband þeirra Daða og Árnýjar sem hófu að rugla saman reitum fyrir tíu árum síðan en verða bara æ ástfangnari.

Þá gefst þjóðinni tækifæri til að hlýða á lagið og læra textann og danssporin til að vera undirbúin fyrir keppninni í maí.

Í næstu fimm þáttum Strauma verða hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni  tekin til skoðunar í tónum og tali. Stjórnendurnir, Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson, lýsa þeim sem góðu og fræðandi partíi, eða smáskammti af gáfumannaræpu í bland við sprell.

Viðmælendur þáttarins í kvöld eru Baldur Þórhallsson, Lóa Hjálmtýsdóttir, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Inga Auðbjörg Straumland. Húsbandið undir stjórn Guðmundar Óskars mun flytja gömul og góð lög í nýjum útsetningum með landsliði íslenskra söngvara, Sölku Sól, GDRN, Sigríði Thorlacius og Valdimar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Opinber frumflutningur á lagi Daða í kvöld

Popptónlist

„Smáskammtur af gáfumannaræpu í bland við sprell“

Sjónvarp

„Ég kyssti hana líka, bara svo það sé á hreinu“