Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Siglingar um Breiðafjörð best tryggðar með nýrri ferju

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að nauðsynlegt sé að bæta vegaþjónustu á Vestfjörðum til lengri tíma. Hann segir þegar hafa verið brugðist við erfiðri færð á vegum þar með því að Vegagerðin og Sæferðir fjölguðu ferðum yfir Breiðafjörð.

Bætt þjónusta verði helst tryggð með því að viðhalda almennilegum siglingum. „Það þýðir auðvitað ný ferja.“ segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu. „Ég get ekki séð annað en þarna þurfi að vera öflug ferja.“

Vél Breiðafjarðarferjunnar Baldurs bilaði í aukaferð yfir Breiðafjörð í fyrradag. Ferjan er aðeins búin einni aðalvél sem ekki tókst að koma í gang. Ferð sem átti að taka tæpar þrjár klukkustundir tók ríflega sólarhring.

Að sögn Sigurðar Inga hafa verið uppi áætlanir að endurnýja ferjuna þegar að því kæmi, og þá helst með svokölluðu orkuskiptaskipi. Það sé óásættanleg staða að núverandi skip bili í tíma og ótíma.

Verið er að skoða samning Sæferða sem gildir til vormánaða 2022 með möguleika á framlengingu í eitt ár. Vegagerðin hafi verið í þarfagreiningu með sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðinu. Sigurður Ingi segir nú verið að fara yfir útboðsskilmála innan ráðuneytisins ásamt Vegagerðinni.

„Varðandi þann samning sem er í gangi um hvaða kröfur sé hægt að gera innan hans og hvort Sæferðir grípi strax til aðgerða. Þetta er öflugt fyrirtæki með sterka innviði.“

Sigurður Ingi segir góðar samgöngur um og til Vestfjarða mikilvægar fyrir ferðamannaiðnaðinn. 

„Við munum náttúrulega skoða útboðskilmála hratt og hvað sé hægt að gera innan þessa samnings. Menn voru að velta fyrir sér hvort Herjólfur þriðji gæti siglt.

Hann er talsvert breiðari og bryggjuendarnir á Brjánslæk og Stykkishólmi gætu ekki tekið hann að óbreyttu. Það þarf bara að skoða alla möguleika því það þarf að laga þetta ástand og alla innviði.“

Sigurður Ingi sagði á þingi fyrr í vikunni að stuðningur ríkisins við rekstur ferju sem siglir yfir Breiðafjörð miði að því að auðvelda samgöngur þar til hægt verður að tryggja samgöngur á vegum allt árið.