Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir allt benda til þess að „egó ráðherra ráði för“

13.03.2021 - 12:47
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir menntamálaráðherra ekki hafa getað svarað því hvaða ráðgjöf hún fékk þegar hún ákvað að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar. Héraðsdómur staðfesti úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að ráðherrann hefði brotið lög. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, styður ráðherrann í vegferð sinni.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrir rúmri viku að engir annmarkar væru á úrskurði kærunefndarinnar og að Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu.

Lilja ákvað aðeins nokkrum klukkustundum eftir að dómurinn lá fyrir að áfrýja honum til Landsréttar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, sagðist í Vikulokunum í morgun styðja ákvörðun Lilju.  Hún hefði fengið tvö utanaðkomandi lögfræðiálit sem hefðu verið samhljóða um að efast mætti um niðurstöðu kærunefndarinnar. 

Sagði tvö samhljóða lögfræðiálit liggja fyrir

Hann benti á að skilaboðin til stjórnsýslunnar væru dálítið ólík því fyrrverandi dómsmálaráðherra hefði fengið dóm frá Hæstarétti fyrir að hafa vikið frá niðurstöðu hæfnisnefndar.  Lilja hefði hins vegar hlustað á niðurstöðu hæfnisnefndar og konan sem kærði þá niðurstöðu hefði ekki verið metin ein af fjórum hæfustu. Þar hefðu þó verið tvær konur.  „Og þegar hún hafði þessi tvö skýru lögfræðiálit var skynsamlegt af henni að skora kærunefndina á hólm.“ 

Nefna má að Lilja vísaði einmitt til hæfnisnefndar um störf dómara máli sínu til stuðnings fyrir héraðsdómi en þeirri málsástæðu var hafnað, eins og reyndar öllum öðrum málsástæðum menntamálaráðherra. Sagði dómurinn að þýðing niðurstöðu dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og svigrúm veitingavaldshafa á því sviði væri með öðrum hætti en niðurstaða ráðgefandi hæfnisnefndar.

Héraðsdómur hafi „blikkað“ ráðherra 

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði eitt að afla sér lögfræðiálita eftir að kærunefndin kvað upp sinn úrskurð, annað og öllu umdeilanlegra að fara í mál við einstakling.  Hann benti á að héraðsdómur hefði hafnað öllum málsástæðum ráðherrans og gert ríkissjóði að greiða allan málskostnað. „Og því felst ákveðið blikk um að málssóknin hafi ekki verið á rökum reist.“

Engu að síður hefðu aðeins liðið nokkrar klukkustundir þar til ákvörðun ráðherrans um að áfrýja málinu til Landsréttar hefði legið fyrir.  Jón Steindór sagði margt benda til þess að ráðherrann hefði ekki fengið neina nýja ráðgjöf um að áfrýjun væri skynsamleg og sagði málið vera teiknast þannig upp að það væri „egó ráðherrans sem réði för.“

Vildi líta á stóru myndina

Kristrún Frostadóttir, sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, sagðist vilja líta á stóru myndina. 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna hefði verið daginn eftir niðurstöðu héraðsdóms, síðan hefði komið frétt um að níu konur hefðu kært heimilisofbeldismál til Mannréttindadómstóls Evrópu og loks hefði dómsmálaráðherra skipað umdeildan mann til að aðstoða við umbætur á réttarkerfinu. Vísaði hún þar til Jón Steinars Gunnlaugssonar sem hefur sagt sig frá verkefninu. 

Þá undraðist hún að nýrri Tekjusögu stjórnvalda hefði ekki verið gefinn meiri gaumur þar sem komið hefði fram að menntaðar konur fengju lægri laun en karlmenn með minni menntun. Þá nefndu hún sömuleiðis að margt benti til þess að aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hefðu aðallega gagnast karlastörfum.