Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný bókabúð í miðborginni

Mynd: - / Úr einkasafni

Ný bókabúð í miðborginni

13.03.2021 - 09:00

Höfundar

Í apríl verður opnuð ný bókabúð að Laugavegi 18 í miðborg Reykjavíkur, í húsinu þar sem Bókabúð Máls og menningar var rekin um áratugaskeið. Ari Gísli Bragason bóksali, sem rekur fornbókabúðina Bókina við Klapparstíg, stendur í stórræðum þessa dagana en undirbúningur fyrir opnun búðarinnar er nú í fullum gangi.

„Það er allt orðið fullt af bókum í gömlu hillunum,“ segir Ari Gísli, „eins og þetta hefur verið frá upphafi daga í þeirri margra áratuga sögu sem bókabúð hefur verið hér á Laugavegi 18. Ég er búinn að fylla allt húsið af bókum. Garðar Kjartansson veitingamaður og fasteignasali er með þetta hús á leigu og hérna verður lifandi tónlist á hverju kvöldi, hann er búinn að láta smíða hérna svið, búinn að kaupa glæsilegan flygil og hérna verður hann með kaffihús og bar, en ekki búllu.“

Annað og meira en bara bókabúð

Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg 18 var einn af hornsteinum íslenskra bókmennta og íslenskrar menningar í ríflega hálfa öld, einn af mikilvægum miðpunktum miðborgarinnar, en búðinni var lokað í fyrra eftir að hafa verið rekin um skeið af aðilum sem voru alls ótengdir bókaforlaginu Máli og menningu. Nýja búðin verður að sögn Ara Gísla annað og meira en bara bókabúð. Hann segir að gestir geti heimsótt búðina, sest niður, fengið sér kaffi og vöfflur, gluggað í bók, og notið lifandi tónlistar og alls þess sem húsið kemur til með að hafa upp á að bjóða. „Þetta hefur maður upplifað í einhverri mynd hérna á Íslandi, í Reykjavík, á Akureyri, en aðallega náttúrlega erlendis, París, Kaupmannahöfn.“

Mikið úrval

Ljóst er að úrval bóka í nýju búðinni verður mjög mikið, og aðgengilegt, Ari segir að ekki síst verði úrval ljóðabóka mikið á heilum vegg, og margar þeirra áritaðar. Bókakosturinn verður vel skipulagður með tilheyrandi merkingum, þetta verður því töluvert skipulagðara en það sem viðskiptavinir Bókarinnar við Klapparstíg eiga að venjast. „Af því að hér hefur verið byrjað frá grunni þá var hægt að skipuleggja þetta aðeins betur. Og núna er ég að reyna að skipuleggja þetta svona flott niðri í búð, niðri á Klapparstíg, þannig að alltaf lærir maður eitthvað á breytingum eða viðbótum.“

Á efri pallinum í kjallaranum ætlar Ari Gísli meðal annars að bjóða upp á gjafavöru og gjafabækur og í kjallaranum sjálfum verða á boðstólum fræðibækur, skáldsögur, þýddar og íslenskar. „Hérna er ég búinn að vera að raða upp fornritasettum, ég verð með tvö til þrjú hundruð Laxnessbækur og svo verð ég hérna með gott úrval af barnabókum, og svo ætla ég að vera með tvö eða þrjú skákborð hérna og sófa, þannig að maður getur tyllt sér hérna.“

Gott karma, góður andi

Ari Gísli segir að fornbókabúðin við Klapparstíg verði áfram starfrækt. „Klapparstígurinn og miðbærinn, þetta er svo skemmtilegt svæði, það er ekkert hægt að fara héðan nema bara í allra brýnustu neyð, þannig að við höldum bara áfram.“ Hann vonast til að nýja búðin geti orðið einn af miðpunktunum í miðborginni, möguleikar hússins séu sannarlega margir, en stefnt er að því að opna í apríl. „Þetta er alveg frábært hús, það er svo gott karma hérna, góður andi. Það var jafnvel planið að opna í lok mars en ætli maður sé ekki að horfa á byrjun apríl, vonandi ekki mikið seinna, kannski um miðjan apríl, það fer eftir því hvernig þessi padda þróast. Við verðum bara að standa okkur.“

Rætt var við Ara Gísla Bragason í Víðsjá.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Eins og gleðin væri horfin úr Máli og menningu