Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Norskir heilbrigðisstarfsmenn lagðir inn með blóðtappa

13.03.2021 - 14:50
FILE - This July 18, 2020, file photo, shows the AstraZeneca offices in Cambridge, England. AstraZeneca announced Monday, Aug. 31, its vaccine candidate has entered the final testing stage in the U.S. The company said the study will involve up to 30,000 adults from various racial, ethnic and geographic groups. (AP Photo/Alastair Grant, File)
 Mynd: AP
Lyfjastofnun Noregs hefur fengið þrjár tilkynningar um alvarlega blóðtappa eða heilablæðingu hjá fólki sem hefur fengið bóluefni AstraZeneca. Sigurd Hortemo hjá stofnuninni biðlar til heilbrigðisstarfsfólks um að vera á varðbergi fyrir einkennum. Ekki sé þó hægt að fullyrða að samhengi sé á milli veikindanna og bóluefnisins en málið verði rannsakað nánar.

Lyfjastofnun Noregs boðaði í dag til blaðamannafundar eftir að norskir fjölmiðlar greindu frá því að þrír heilbrigðisstarfsmenn hefðu verið lagðir inn með blóðtappa. Þeir höfðu allir verið bólusettir með bóluefni AstraZencea.

Hortemo sagði í stutri yfirlýsingu að lyfjastofnunin hefði fengið fleiri tilkynningar um aukaverkanir. Fólk undir 50 ára hefði meðal annars greint frá húðblæðingum.  Hann bað því fólk á þessum aldri sem hefði verið bólusett síðasta hálfa mánuðinn, fundið fyrir einkennum og tekið eftir stórum eða litlum blettum á húðinni að sækja sér læknisaðstoðar.

Á vef Aftenposten kemur fram að tveir af þessum þremur séu ungir að árum og hafi nýverið fengið bóluefni frá bresk/sænska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca. NRK hefur eftir Steinari Madsen, forstjóri norsku lyfjastofnunarinnar, að þremenningarnir séu mjög veikir og að sjúkdómseinkennin óvenjuleg.  „Þetta er óvenjuleg staða og við verðum að rannsaka þetta mjög gaumgæfilega.“

Lyfjastofnun Evrópu hefur sagt að ekkert bendi til orsakasamhengis milli blóðtappa og bóluefnis AstraZeneca og ætlar að skila endanlegu áliti í næstu viku.  

Ísland er í hópi landa sem hafa stöðvað bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Bóluefnið hefur aðallega verið notað til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk en fram kemur á vef Landspítala að spítalinn hafi ekki fengið úthlutað bóluefni úr þeirri lotu sem tengd hefur verið við mögulega aukaverkun. 

Lyfjastofnun Íslands sendi frá sér tilkynningu á fimmtudag þar sem kom fram að þrjár tilkynningar hefðu borist um myndun blóðtappa eftir bólusetningu gegn COVID-19; eina tilkynningu fyrir hvert bóluefni sem hefur verið notað hér á landi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV