Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Maður spyr ekkert: Ertu til í að gefa mér egg?“

13.03.2021 - 19:38
Mynd: RÚV / Skjáskot
Kona, sem hefur í mörg ár reynt að eignast barn og fékk nýverið að vita að hún hefði fæðst með of fá egg, sér fram á að þurfa að bíða í að minnsta kosti tvö ár eftir að fá gjafaegg. Hún vill opna umræðu um ófrjósemi og þann möguleika að hjálpa öðrum til að eignast barn.

Ingibjörg Bryngeirsdóttir stýrimaður á Herjólfi tók þá ákvörðun fyrir nokkru að reyna að eignast barn. Eftir að hafa leitað aðstoðar hjá læknastofu sem sérhæfir sig í frjósemismeðferðum, kom í ljós að eina leiðin fyrir hana til þess er að fá bæði egg og sæði að gjöf.

„Mig langar í barn. Ég er búin að ganga í gegnum ýmislegt. Ég er búin að reyna að eignast barn sjálf og ég hef reynt að koma eggjaframleiðslu af stað. En málið er að ég fæddist með of fá egg. Ef við tökum dæmi og segjum að venjuleg kona fæðist með til dæmis þúsund egg, þá fæddist ég bara með 300. Þetta er einhver genagalli,“ segir Ingibjörg.

„Málið er að ég þarf að bíða í 2-3 ár af því að það er svo lítið um að konur séu að gefa egg.“

Ingibjörg segir að konum standi ekki til boða aðgerðir af þessu tagi eftir að þær eru orðnar 49 ára. Hún er 44 ára og hafði lengi leitað sér aðstoðar vegna ófrjósemi, en fékk ekki fullnægjandi svör fyrr en nýlega. Hún segist hafa farið í þetta ferli miklu fyrr ef hún hefði vitað af því að hún væri ekki með nein egg. 
Aldursbil þeirra kvenna sem geta gefið egg er 23-35 ára og Ingibjörg segir að þetta þrönga aldursbil takmarki mjög möguleika á eggjagjöf.

„Yfirleitt eru konur sjálfar að eignast börn á þessum aldri og eru kannski ekkert tilbúnar í þetta fyrr en eftir að þær eru búnar með sinn pakka.“

Ingibjörg vill opna umræðuna um ófrjósemi og þann möguleika að hjálpa öðrum til að eignast barn. „Þetta er ekkert sem maður spyr bara: Ertu til í að gefa mér egg? Mig langar til að það verði pínu vitundarvakning með þetta? Þetta er feimnis-umræða og fólk pukrast með þetta í sínum hornum. Það er hellingur af konum og körlum sem eru í vanda með þetta og margir að leita út fyrir landsteinana vegna þess að þeir eru pínu feimnir.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir