Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kristján Þór gefur ekki kost á sér

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ætlar ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Kristján Þór. Þar segir hann að ákvörðunin sé tekin að vel ígrunduðu máli. Hann hafi gert það upp við sig að þetta sé orðið gott eftir hálfan fjórða áratug í stjórnmálum. Hann kveðst þó ætla að vera virkur áfram í starfi Sjálfstæðisflokksins.

Kristján Þór er núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrsti þingmaður þess. Hann hefur gegnt ráðherraembætti allt frá árinu 2013. Fyrst sem heilbrigðisráðherra, svo mennta- og menningarmálaráðherra og nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.