Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frumkvæðisskylda vegna fjölda sveitarfélaga afnumin

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir að með þeim tillögum sem nú er unnið að í þinginu verði frumkvæðisskylda ráðherra afnumin um að bregðast við með beinum hætti þótt sveitarfélög telji ekki 250 manns núna eða eitt þúsund árið 2026.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga, sem var meðal gesta í Vikulokunum á Rás eitt í morgun, en hann hefur sagst tilbúinn til þess að falla frá ákvæði um lögbundinn lágmarksíbúafjölda í frumvarpi um sameiningu sveitarfélaga.

Þar var gert ráð fyrir því að ráðherra skyldi eiga frumkvæði að því að sameina sveitarfélag öðru eða öðrum nærliggjandi hefði það haft færri íbúa en að framan greinir í þrjú ár samfleytt.

Tuttugu smærri sveitarfélög sameinuðust í mótmælum gegn þúsund íbúa lágmarksfjölda sem átti að taka gildi fyrir þar næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2026.

Sveitarfélög í landinu eru nú 69 en voru 229 árið 1950. Frá árinu 1990 hefur þeim fækkað hratt, en síðan þá hefur markmiðið verið að fækka, stækka og styrkja sveitarfélög að því er fram kemur á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Ég er algerlega sannfærður um að endurskipulagning sveitarstjórnarstigsins sé stærsta stjórnsýsluumbótaverkefni sem hægt er að fara í,“  segir Sigurður Ingi og að þegar verið var að móta frumvarpið hafi verið jákvæður taktur í sveitarfélögunum, stórum og smáum.

Það hafi breyst og í góðu lagi sé að segja hlutina eins og þeir eru. Hann kveðst hafa fundað með fulltrúum smærri sveitarfélaganna og að nú sé verið að vinna með þinginu að tillögum þar sem hægt verði taka tillit til sjónarmiða sveitarfélaganna.

Aðspurður telur Sigurður Ingi ólíklegt að sveitarfélög í landinu verði áfram 65 til 70 talsins. Hann segir mikla umræða hefur verið uppi og að COVID-19 hafi orðið til þess að sveitarfélögin áttuðu sig á að þau þurfi þyngri slagkraft.

Sigurður rifjar upp að Seyðfirðingar fögnuðu því eftir skriðuföllin miklu í bænum að þeir væru hluti Múlaþingi en þyrftu ekki að kljást við þetta ein. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar sem einnig var gestur í Vikulokunum, segir vont ef þvinga þurfi fram breytingar.

Hann segir að heldur ætti að leggja þær skyldur á að sveitarfélög að þau geti staðið við tiltekin verkefni. Hægt sé að deila um hver þau verkefni séu en ráði sveitarfélög ekki við þau hverfi grundvöllurinn fyrir þeim.

„Sveitarfélögin þurfa að vera sterkari til að takast á við nútímann en þau þurfa tól og tæki til að geta verið það,“ segir Jón Steindór og að sveitarfélögum, einkum úti á landi eigi að finnast að þau hafi þau tól og tæki. Það þurfi að fást við og bæta úr þeirri tilfinningu að þeim finnist þau afskipt.

Kristrún Frostadóttir, sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að sýna þurfi sveitarfélögunum sanngirni við þessar aðstæður, einkum núna þegar sum þeirra eru á hnjánum.

„Þetta snýst um ákvörðun sem víða er ekki vinsæl en til lengri tíma skynsamleg. Það skiptir máli að vel sé að þessu staðið,“ segir Kristrún. Hún telur að umræðan eigi að snúast um hvernig á hlúa beri að einstaka sveitarfélögum. 

Fara þurfi í sértækar aðgerðir til að styrkja mörg þeirra áður en farið verður að tala um þróun þessa stjórnsýslustigs að sögn Kristrúnar enda hafi mörg þeirra tekið á sig ofboðslegt högg.