Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjársöfnun gengur þokkalega en betur má ef duga skal

Mynd með færslu
 Mynd: Austurfrétt - Gunnar Gunnarsson
Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir ráðgjafi hjá Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði segir að tryggingar bæti húsakost safnins eftir skriðuföllin í desember en innbú á söfnum sé erfitt að bæta. Því hafi verið ákveðið að leita annarra leiða.

Sú ákvörðun var tekin að efna til söfnunar á Karolina fund fyrir Tækniminjasafnið en ætlun er að safna 25 þúsund evrum eða hátt í fjórðu milljón króna.

„Við þurfum að hugsa út fyrir boxið enda ekki digrir sjóðir að baki svona safni.“ Mjög mikið af safnkostinum eyðilagðíst í skriðunni en tjónið hefur að sögn Elfu reynst minna en óttast var.    

„Það var ótrúlega margt sem bjargaðist sem var í efri hæð á húsi sem skriðan féll á. Þar komu hlutir, margir hverjir þokkalega óskaddaðir út úr skriðunni.“  Elfa segir söfnunina hafa farið hægt af af stað, gengið hafi ágætlega en betur megi ef duga skuli.

„Við erum komin með fimmtíu prósent af þriggja milljóna takmarkinu núna en henni lýkur á mánudagskvöldið þannig að við vonum að fólk taki við sér.“ Karolinafund gerði undantekningu á reglum um að ná þurfi að safna fyrirhugaðri fjárhæð. 

„Við fáum þá það fjármagn sem safnast þótt takmarkinu verði ekki náð. Við erum því ekki í kappi við að ná takmarkinu en auðvitað viljum við ná því.“ 

Þrjú hús safnsins gereyðilögðust í aurskriðunni en byggð verður ekki leyfð á svæðinu þar sem það stóð. Því þarf safnið að færa sig um set. Elfa segir að farið verði að huga frekar að framtíð safnsins með vorinu.