Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldís talin hafa „rúmt svigrúm til tjáningar“

13.03.2021 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Héraðsdómur Reykjavíkur segir að Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, hafi haft rúmt svigrúm til tjáningar þegar hún veitti Morgunútvarpi Rásar 2 viðtal í janúar fyrir tveimur árum. Faðir hennar sé opinber persóna og það hafi verið hann sjálfur sem fyrst beindi athygli að dóttur sinni og meintum veikindum hennar í viðtali við Stundina nokkrum dögum fyrir viðtalið.

Héraðsdómur ómerkti á föstudag tvenn ummæli Aldísar af tíu sem hún lét falla um föður sinn.

Önnur ummælin voru í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 þar sem hún sagði: „fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn.“ Aldís var þar að svara spurningu Sigmars Guðmundssonar, þáttastjórnanda, hvort faðir hennar stjórnaðist af einhverri fíkn. Héraðsdómur telur að hagsmunir Jóns Baldvins af því að vera laus undan því að vera bendlaður við barnagirnd séu mun ríkari en hagsmunir Aldísar að bendla hann við þá sem haldnir séu barnagirnd. 

Dómurinn kemst að sömu niðurstöðu um hin ummælin sem birtust á Facebook-síðu Aldísar eftir viðtal við föður hennar í Silfrinu á RÚV.  Aldís gaf þá skýringu á ummælum sínum að í viðtalinu hefði faðir hennar enn og aftur veist að æru hennar með því að fjalla opinskátt um meint veikindi hennar. 

Hin ummælin átta sem Aldisí var stefnt fyrir standa eftir óhögguð og Sigmar Guðmundsson var sýknaður af öllum kröfum.  

Héraðsdómur segir meðal annars í niðurstöðu sinni að Jón Baldvin sé opinber persóna. Hann hafi um árabil verið leiðtogi stjórnmálaflokks, alþingismaður, ráðherra og síðar sendiherra og hafi auk þess látið til sín taka í þjóðfélagsumræðu.  Hann verði því að sæta að tjáning annarra gagnvart honum gangi nær honum en almennt gildi um persónur sem ekki teljist opinberar. 

Dómurinn bendir enn fremur á ítarlega umfjöllun í Stundinni sem birtist rúmri viku fyrir viðtal Aldísar við Morgunútvarpið.

Í umfjölluninni var greint frá sögum kvenna sem sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni. Dómurinn segir að í viðtali við blaðamann hafi Jón Baldvin sjálfur beint athygli að Aldísi með því að tala um meint veikindi hennar, væna hana um að standa á bakvið sögur kvenna sem birtust í Stundinni og tengja saman meint veikindi hennar og frásagnir kvennanna.  

Dómurinn kemst því að þeirri niðurstöðu að þar sem Jón Baldvin sé opinber persóna og að þarna voru mál sem voru hluti af þjóðfélagsumræðu verði að ætla Aldísi „rúmt svigrúm til tjáningar, ekki síst í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar.“