Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þau atvinnulausu finna mest fyrir kreppunni

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ríkisstjórnin ætlar að verja um fimm milljörðum króna til að unnt verði að skapa um sjö þúsund manns atvinnu. Úrræðið er ætlað þeim sem hafa verið án vinnu í eitt ár eða lengur. Forsætisráðherra segir að kreppan vegna faraldursins hafi ekki verið jafndjúp og óttast var. „En stóri vandinn er hins vegar atvinnuleysi. Þau sem eru atvinnulaus það er fólkið sem er að finna kannski mest fyrir þessari kreppu.“

Forsætisráðherra og félagsmálaráðherra efndu til sameiginlegs fréttamannafundar í dag til að kynna aðgerðir í þágu þeirra sem hafa verið án vinnu í ár eða lengur. Forsætisráðherra segir að efnahagssamdrátturinn hafi ekki orðið jafnmikill vegna faraldursins, að hluta til vegna aðgerða ríkisstjórnar og Seðlabanka.

„En stóri vandinn er hins vegar atvinnuleysi. Þau sem eru atvinnulaus það er fólkið sem er að finna kannski mest fyrir þessari kreppu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Rúmlega tuttugu og eitt þúsund manns eru án vinnu. Þeim sem hafa verið án vinnu lengur en í eitt ár hefur fjölgað og eru þeir nú rúmlega fjögur þúsund og sjö hundruð.

„Þessar aðgerðir sem við erum að kynna í dag þær snúast um það að tryggja að atvinnuleysi verði ekki langtímaböl í samfélaginu,“ segir Katrín.

Aðgerðirnar ættu að geta skapað um sjö þúsund tímabundin störf. Verja á allt að fimm milljörðum króna úr ríkissjóði í verkefnið. Störfin eiga að vera í allt að sex mánuði.

„Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og þessi faraldur er að hafa efnahagslegar afleiðingar og við viljum sjá viðspyrnuna fara af stað,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.

Aðgerðunum er skipt í nokkra hluta. Þannig geta lítil og meðalstór fyrirtæki og félagasamtök fengið fjögur hundruð og sjötíu þúsund krónur á mánuði frá ríki með hverjum nýjum starfsmanni. Sveitarfélög geta fengið svipaða upphæð fyrir að ráða í vinnu fólk sem hefur misst rétt til atvinnuleysisbóta. Stærri fyrirtæki geta fengið rúmar þrjú hundruð þúsund krónur með nýjum starfsmanni.

„Þannig að nú er bara að hvetja til þess að allir þeir sem með einum eða öðrum hætti geta skapað störf í þessu landi að fara inn á hefjumstörf.is, skoða þetta átak og velta fyrir sér: eru ekki einhver verkefni sem er hægt að búa til í mínu fyrirtæki á mínum vinnustað og nýta þetta átak og koma sem flestum í virkni í íslensku samfélagi,“ segir Ásmundur Einar.