Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Reimleikar í Búðardal hitta í mark á hljóðbókamarkaði

Mynd: Storytel / RÚV

Reimleikar í Búðardal hitta í mark á hljóðbókamarkaði

12.03.2021 - 08:37

Höfundar

Hrollvekjan Ó, Karítas eftir Emil Hjörvar Petersen fjallar um útbrunninn meistarakokk sem flytur í Búðardal í hús sem reimt er í. Hljóðbókaútgáfan Storytel pantaði söguna sem hefur fengið góðar viðtökur.

Emil Hjörvar, sem er þekktur fyrir bækur á fantasíusviðinu, eins og Sögu eftirlifenda, sló til þegar Storytel hafði samband og falaðist eftir nýrri sögu eftir hann.

„Ég sendi þeim nokkrar hugmyndir. Var með svona hugmyndakistu sem var full af hugmyndum sem mig langaði að skrifa um en maður hefur ekki allan tímann í heiminum,“ segir Emil í samtali við Egil Helgason í Kiljunni. „Ein af þeim hugmyndum var Ó, Karítas. Hugmynd sem ég fékk fyrir nokkrum árum og þeim leist svona vel á hana og þá hófst ég handa við að búa til svona beinagrind sem ég gat síðan stuðst við en hún var ekkert heilög.“

Bókin kom út sem hljóðbók og rafbók og segir Emil að ýmislegt sé líkt og ólíkt í ferlinu, samanborið við hefðbundna útgáfu á pappírsbók. „Ég þurfti stundum að staldra við og hugsa: Ætti ég kannski að lýsa þessu á aðeins sjónrænni hátt? Og ég lagði mikið upp úr samtölunum, að þau væru lífleg og að karakterar, persónur töluðu ólíkt og það skilaði sér svo til leikarans. En lengdin og byggingin er svipuð og efnið líka. Svo átti ég í nánu samstarfi við ritstjóra og það var mjög þægilegt.“

Bókin hitti í mark hjá lesendum Storytel og segir Emil að þetta sé annar besti árangur bókar hjá Storytel á Íslandi frá upphafi.

Ó, Karítas fjallar um meistarakokkinn Braga sem flytur í Búðardal með unglingana sína tvo. Hann er nýfráskilinn og útbrunninn eftir mikið og erfitt starf sem landsliðskokkur í Reykjavík. Hann ætlar að hefja nýtt líf. Hann kaupir hús við sjóinn í Búðardal og ekki líður á löngu þar til kona að nafni Karítas gengur inn á veitingastaðinn á gistiheimilinu. Hún er einkennileg í háttum en Bragi hrífst furðufljótt af henni. Svo leiðir eitt af öðru og þau fara að verða vör við reimleika í húsinu. „Þannig að þetta er hrollvekja og grunnhugmyndin vaknar af þjóðsögu sem ég las frá þessu svæði sem heitir einmitt Karítas í Búðardal,“ segir Emil Hjörvar.

Þær eru merkilega fáar, hrollvekjurnar sem skrifaðar hafa verið á Íslandi, og vildi Emil nýta sígild minni úr greininni en gera það á rammíslenskan hátt. Honum þykir gaman að draga fram undur og hrylling á óvæntum stöðum á Íslandi og varð Búðardalur fyrir valinu sem sögusvið eftir ferðalag um Strandir fyrir aðra bók. Ákveðið hús fangaði athygli hans í Búðardal, gistiheimilið Dalakot. „Ég var á leiðinni á Strandir fyrir aðra bók og stoppaði í Búðardal. Ég var á leiðinni alla leið í Trékyllisvík að pæla í galdrabrennunum. Ég var búinn að vera að lesa þjóðsögur og alls kyns efni frá Vesturlandi og Vestfjarðakjálkanum. Þannig að ég stoppaði í Búðardal og fékk mér kaffi. Þetta er einmitt svona rólegt þorp sem lætur lítið yfir sér en það var þetta hús sem fangaði athygli mína.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sólhvörf - Emil Hjörvar Petersen

Bókmenntir

Skrímslin sem stjákla um stræti Reykjavíkur