Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Palestínsk börn handtekin nærri landtökubyggð

12.03.2021 - 04:41
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Fimm palestínsk börn, á aldrinum átta til þrettán ára, voru í haldi ísraelskra öryggissveita í nokkrar klukkustundir á miðvikudag. Al Jazeera fréttastofan hefur þetta eftir mannréttindasamtökunum B'Tselem.

Samtökin birtu myndband af því þegar börnin eru handtekin, þar sem þau eru að tína grænmeti nærri landtökubyggð á Vesturbakkanum. Á myndbandinu sjást þungvopnaðir hermenn draga börnin á brott af svæðinu.

Landtökubyggðin er nærri palestínska þorpinu Masafer Yatta á sunnanverðum Hebron hæðum. Að sögn Al Jazeera beinast augu Ísraelshers og landtökufólks ítrekað að þessu svæði.

Börnunum var haldið á lögreglustöð í um fimm klukkustundir, samkvæmt mannréttindalögmanninum Gaby Lasky sem tók mál þeirra að sér. Tveimur elstu börnunum, tólf og þrettán ára, var skipað að mæta aftur á lögreglustöðina eftir viku til frekari yfirheyrslu. Samkvæmt ísraelskum lögum eru þau nógu gömul til þess að sæta ákæru.

Samkvæmt réttindasamtökunum Defense for Children International eru um 500 til 700 börn send fyrir herrétt á hverju ári í Ísrael. 140 palestínsk börn eru nú í ísraelskum fangelsum að sögn Addameer, samtökum um réttindi fanga. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV