Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ofbeldi gegn öldruðum er dulinn vandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ofbeldi gegn öldruðum er dulinn vandi, segir yfirmaður greiningadeildar Ríkislögreglustjóra. Deildin hefur birt skýrslu um málefnið. Hann segir að vekja þurfi þjóðfélagið til vitundar um vandann og að rannsaka þurfi sérstaklega ofbeldi gengu öldruðum. Í skýrslunni kemur fram að erfitt sé að meta umfang ofbeldisins þar sem aldraðir skilgreina ofbeldi á annan hátt en yngri kynslóðir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að sextán af hundraði fólks 60 ára og eldri verði fyrir ofbeldi. 

Í skýrslunni, sem birt var í gær, segir að ofbeldi gegn öldruðum sé hulinn vandi og að birtingarmyndir geti verið ólíkar. Þá sé mikilvægt að hafa í huga að vanræksla getur flokkast sem ofbeldi líkt og skortur á virðingu fyrir reisn og sjálfsákvörðunarrétti viðkomandi. Runólfur Þórhallson aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður greiningadeildar Ríkislögreglustjóra segir að gera þurfi rannsóknir hérlendis, auka þurfi samvinnu lögreglu, heilsugæslu, félagsþjónustu og dvalar- og hjúkrunarheimila: 
 
„Vitundin mætti vera betri og síðan segja rannsóknir okkur það að aldraðir tilkynna síður um ofbeldi til lögreglu og til annarra. Það er alveg klárlega dulinn vandi og þess vegna er mikilvægt að við tölum um þetta og reynum að vekja samfélagið allt til vitundar um þetta,“ segir Runólfur.

Nokkrar rannsóknir tengdar ofbeldi gegn öldruðum hafa verið gerðar hér og vísað er í skýrslunni til rannsókna á Norðurlöndum og tengdar Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Ein þeirra frá 2017 sýndi að tæp 16 prósent fólks 60 ára og eldra hafði orðið fyrir ofbeldi undanfarið ár.  Birtingarmyndir ofbeldis eru margvíslegar eins og líkamlegt og tilfinningalegt ofbeldi en líka fjárhagslegt ofbeldi eins og þegar fé er svikið út úr eldra fólki og vanræksla eins og þegar aldraðir fá ekki umönnun eða eru vannærðir. Allt ofbeldi á að tilkynna til lögreglu. Á vef lögreglunnar er hægt að tilkynna brot rafrænt. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV