
Nýtt greiðslukerfi Strætó innleitt í maí næstkomandi
Það er norska hugbúnaðarfyrirtækið Fara sem annast uppsetningu kerfisins og Guðmundur Heiðar segir í samtali við fréttastofu hann sé bjartsýnn á að tímaáætlunin standist.
Hann segir að ætlunin sé að fá stóran notendahóp til að prófa hvernig kerfið virkar, en boðið verður upp á kort sem lagt er upp að lesara og app í farsíma. Guðmundur líkir því við Oyster-kortið sem margir kannist við frá Lundúnum.
Að sögn Guðmundar á nýja kerfið á að vera öruggara fyrir bæði fyrir notendur og Strætó. Það muni meðal annars auðvelda kortlagningu á því hvernig þjónusta strætisvagnanna er notuð.
Það tryggi notendum bestu þjónustu hverju sinni. Mikil áhersla sé lögð á persónuvernd og að ferðalög fólks verði ekki rekjanleg.
Guðmundur segir að öryrkjar, eldri borgarar og ungmenni geti með nýja kerfinu keypt mánaðarkort, sem veiti afslátt, en hingað til hefur þeim hópum aðeins verið kleift að kaupa einstakar ferðir eða árskort með afslætti.
Það hafi valdið ákveðnu óhagræði því vitað sé að einhverjir hafi þurft að dreifa greiðslum fyrir árskortin með tilheyrandi kostnaði.
Sérstakt svæði fyrir notendur verður á vefsíðu Strætó og þar verður hægt að virkja afslætti. Strætóferðir verða áfram fríar fyrir börn á aldrinum 6 til 11 ára, en það var innleitt um áramót.
Guðmundur segir fyrirhugað seinna meir að innleiða afsláttarkerfi, með greiðsluþaki, þar sem notendur þurfa ekki að greiða fargjald þegar ákveðnum ferðafjölda verður náð hvern dag eða í hverri viku.