Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margir hætti að leita læknis ef milligöngu verður hætt

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Deila sérgreinalækna og stjórnvalda bitnar á sjúklingum, segir formaður Öryrkjabandalagsins. Hætti læknar milligöngu um niðurgreiðslu kostnaðar sjúklinga muni margir veigra sér við því að leita læknis. „Það er alveg ljóst að það mun veigra sér við að sækja læknisþjónustu og fullt af fólki sem mun ekki treysta sér til að fara sjálft upp á Vínlandsleið til Sjúkratrygginga,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Formaður Öryrkjabandalagsins segir ósanngjarnt að deila sérgreinalækna og Sjúkratrygginga Íslands bitni á sjúklingum. Efnalítið fólk geti ekki lagt út tugi þúsunda króna fyrir lækniskostnaði og margir eigi óhægt um að gera sér ferð í Sjúkratryggingar á Vínlandsleið í Reykjavík til að krefjast endurgreiðslu. 

Í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í gærkvöldi kom fram að sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar íhugi að hætta að hafa milligöngu um niðurgreiðslu ríkisins á kostnaði sjúklinga. Það myndi þýða að sjúklingar þyrftu að leggja út fyrir öllum kostnaði og sækja svo sjálfir þá endurgreiðslu sem þeir ættu rétt á. Ástæðan er deila um lækna og stjórnvalda um samninga um þjónustuna. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að þetta bitni á þeim sem síst skyldi. 

„Ég held að þetta hafi bara mjög slæm áhrif á sjúklinga, bæði fólk sem er innan sem utan vinnumarkaðar. Það er alveg ljóst að það mun veigra sér við að sækja læknisþjónustu og fullt af fólki sem mun ekki treysta sér til að fara sjálft upp á Vínlandsleið til Sjúkratrygginga,“ segir Þuríður Harpa.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir að það yrði mjög óheppilegt ef læknar hættu milligöngunni. 

„Það er mjög mikilvægt í sambandi við öll þessi kerfi að þau tali saman þannig að allur frágangur fyrir sjúklinginn sjálfan sé eins einfaldur og mögulegt er. Það getur verið mjög íþyngjandi fyrir fólk að leggja út tiltölulega háar upphæðir og þurfa að bíða eftir endurgreiðslu. Þetta er auðvitað bara enn eitt sem bætir á það álag sem fólk er þegar undir. Viðsemjendur þurfa auðvitað í sinni vinnu að hafa sjúklinginn í huga. Hann þarf að vera útgangspunkturinn,“ segir Halla.

„Þetta getur örugglega hlaupið á tugum þúsunda og sjúklingar veigra sér við því. Þetta á bara ekki að vera svona í okkar samfélagi að það séu sjúklingar sem líði fyrir samningsleysi milli Sjúkratrygginga og sérgreinalækna,“ segir Þuríður Harpa.

SÍSB fullvisst um að deilan leysist farsællega

Fréttastofa leitaði einnig viðbragða Guðmundar Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, við yfirlýsingum sérgreinalækna og hvaða áhrif það myndi hafa á sjúklinga ef þeir þurfi að leggja út fyrir öllum lækniskostnaði. Sex sjúklingafélög eiga aðild að SÍBS, Hjartaheill, Berklavörn/Sjálfsvörn, Samtök lungnasjúklinga, Astma– og ofnæmisfélag Íslands og Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir. 

„Um það ríkir samfélagssáttmáli á Íslandi að heilbrigðisþjónusta skuli að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum. Með þá sjóði fara Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd ríkisvaldsins. SÍBS treystir bæði kaupendum og seljendum heilbrigðisþjónustu til að semja sín á milli um eðlilega viðskiptahætti,“ segir Guðmundur í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttastofu RÚV.

Þannig að þú ert nokkuð viss um að þetta verði ekki til þess að einhverjir veigri sér við því að fara til læknis vegna þess að þeir þurfa að leggja út fyrir háum fjárhæðum?

„Við erum þess fullviss að þessi samningsatriði leysist farsællega með góðum vilja beggja aðila,“ segir í svari Guðmundar.