Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gengur hægt að koma taug milli skipa

Mynd tekin úr Breiðafjarðarferjunni Baldri meðan hún var aflvana og unnið við að koma henni til hafnar.
 Mynd: Einar Sveinn Ólafsson
Það gengur hægt að koma taug í ferjuna Baldur vegna veðurs, en hún hefur verið á Breiðafirði frá því í gærdag vegna vélarbilunar. Varðskipið Þór og dráttarbáturinn Fönix eru við Baldur norður af Stykkishólmi.

„Það svo sem gengur rólega, það er ennþá talsverður vindur og við erum svona að meta stöðuna,“ segir Einar Valsson, skipherra á Þór. „Næsta plan er að reyna að taka skipið bara í tog hjá okkur og fara með það nær höfninni. Það er bara veðrið, það er 15-17 metra vindur af norðaustri, það er svona það helst það sem er að tefja okkur og trufla.“

Einar vonast til að hægt verði að koma taug frá Þór yfir í Baldur um hádegi og Fönix taki við drættinum þegar skipin koma að landi. „Það er bara svo þröngt inn í höfnina í Hólminum og sérstaklega í þessari veðurhæð. Þá yrði bara erfitt fyrir okkur að athafna okkur með skipið á síðunni inn í höfnina, þannig að Fönix er heppilegri í það.

Hafa þínir menn farið eitthvað um borð í Baldur? 

Nei en við erum að vinna í því að fara með mannskap þangað til að aðstoða þá þegar við skiptum um dráttartaug og tengingu milli skipanna.

Hvað gerið þið ráð fyrir að þetta taki langan tíma hjá ykkur?

Það er ómögulegt að segja, það fer eftir því hvernig veðrið verður. Við erum að vonast til að geta skipt þessum tenginum um hádegi og farið þá strax í aðgerðir ef að spáin gengur eftir og vindurinn gengur niður.“

Um borð í Baldri eru 20 farþegar og átta manna áhöfn. Í morgunmat ar boðið upp á beikon og egg. Fólk um borð býr sig undir hádegismat um borð áður en hægt verður að draga ferjuna til hafnar.

Mynd tekin úr Breiðafjarðarferjunni Baldri meðan hún var aflvana og unnið við að koma henni til hafnar.
 Mynd: Einar Sveinn Ólafsson