Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk var sjóveikt og hrætt

12.03.2021 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - RÚV
Nóttin um borð í Baldri byrjaði illa en eftir að tókst að snúa skipinu upp í vindinn hefur gengið mun betur, segir Einar Sveinn Ólafsson, einn farþeganna um borð. Skipið lagði af stað frá Brjánslæk í hádeginu í gær. Einar Sveinn segir að þegar vélin bilaði á leiðinni yfir Breiðafjörð hafi fólk í fyrstu talið að þetta yrði ekki það mikið mál, að vélin kæmist fljótlega í gang. Annað átti eftir að koma í ljós.

„Nóttin byrjaði illa. Þegar Árni [Friðriksson rannsóknaskip] dró okkur út á Breiðafjörð norður af Grundarfirði valt skipið illilega þegar var verið að reyna að snúa því upp í vindinn,“ segir Einar Sveinn. „Það fór allt á fleygiferð og fólk varð sjóveikt og hrætt. En eftir að tókst að snúa skipinu upp í hefur farið mjög vel á. Margir fengu koju og fólk er að koma á fætur núna.“

Áhöfnin er með stjórn á öllu og hugsar mjög vel um farþegana, segir Einar Sveinn. „Þetta er ekki farþegaskip til að sofa í. Það var vont í sjóinn í gær, það er miklu betra í sjóinn núna.“

Dráttarbáturinn Fönix kom á vettvang í nótt og tekur Breiðafjarðarferjuna Baldur í tog þegar veður leyfir og dregur hana til hafnar. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson tók ferjuna í tog í gær og varðskipið Þór kom á vettvang. Bæði skipin hafa verið við hlið Baldurs síðan þá og Fönix bættist í hópinn í nótt.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða sem gera Baldur út, sagði í morgunfréttum RÚV að skipin lónuðu skammt úti fyrir Stykkishólmi. Þar væri enn nokkur vindur og suddi. Hann gerði ráð fyrir að reynt verði að koma línu milli dráttarbátsins og ferjunnar þegar birtir og veður lagast. Að því loknu verður Baldur dreginn í höfn. Um tuttugu farþegar og átta manna áhöfn eru um borð. Gunnlaugur sagði að reynt hafi verið að láta fara eins vel um fólk og hægt sé við þessar erfiðu aðstæður. Kojur eru um borð og nýttu flestir sér tækifærið til að leggjast þar til svefns yfir nóttina. 

Fréttin var uppfærð 8:35 með upplýsingum frá Gunnlaugi Grettissyni úr morgunfréttum.