Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fagnar því ef ráðherra fellur frá 1.000 íbúa lágmarki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Talsmaður hóps smærri sveitarfélaga fagnar því að ráðherra sveitarstjórnarmála kunni að falla frá ákvæði um lögbundinn lágmarksíbúafjölda í frumvarpi um sameiningu sveitarfélaga. Hann er bjartsýnn á að sátt náist um þetta mál.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagðist í fréttum RÚV í gærkvöld tilbúinn til að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum án þess að í því væri ákvæði sem segir að ráðherra skuli eiga frumkvæði að því að sameina sveitarfélag öðru nái það ekki tilteknum lágmarksíbúafjölda. Það lágmark skuli vera 1.000 íbúar.

„Erum ánægð með ráðherrann í þessu“

„Við fögnum þessu bara. Við höfum orðið vör við að það hefur fjarað undan stuðningi um íbúalágmarkið jafnt og þétt síðustu misserin og við bara erum ánægð með ráðherrann í þessu,“ segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, sem er eitt af 20 smærri sveitarfélögum sem mótmælt hafa ákvæði um lágmarksíbúafjölda.

Allir sammála um að styrkja þurfi sveitarfélögin

Þröstur segist bjartsýnn á að nú náist sátt um hvaða leiðir skuli fara við sameiningu sveitarfélaga. „Ég held að það séu allir sammála um að vilja styrkja sveitarfélaögin og ekki síður að styrkja byggðirnar út um landið. Það eru markmið sem við viljum vinna saman að.“

Aðalhvatningin hvort sameining er skynsamleg

Og aðalhvatningin til sameiningar sé hvort hún er skynsamleg og hvort sameining geri sveitarfélögin sterkari. Þar þurfi ekki lögbindingu. „Þar sem að það er skynsamlegt að sameina þar mun það verða gert og það er mjög líklegt að sveitarfélögin muni stækka og sameinast víða á næstu árum,“ segir hann.