Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetningar tefjast um fjórar vikur

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Gert er ráð fyrir að um það bil fjögurra vikna tafir verði á bólusetningaráætlun stjórnvalda vegna tafa á afhendingu bóluefnis frá AstraZeneca til Evrópusamstarfsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þjóðin verði þá fullbólusett gegn COVID-19 í lok júlí í stað lok júní.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að bólusetningardagatalið miði við ákveðna afhendingaráætlun sem breytist frá degi til dags. Ekki hafi fengist afhendingaráætlun frá Jansen sem í gær fékk markaðsleyfi hér á landi. Nú er gert ráð fyrir að samtals komi um 19.000 skammtar af bóluefni frá Pfizer og Moderna fyrir lok mars. 

„Í meginatriðum er það þannig að við vitum ekki mikið eftir mars en við vitum nokkurn veginn hvenær við erum komin þangað að hafa boðið öllum eldri en 16 ára bóluefni.“

Nú hafa rúmlega 33.000 verið bólusett hér á landi og áætlað var að 45.000 yrðu bólusettir fyrir lok mars, en nú er ljóst að þeir verða 43.000. Samkvæmt bólusetningardagatali heilbrigðisráðuneytisins átti að vera búið að bjóða öllum Íslendingum yfir 16 ára aldri bóluefni í lok júní.  Vegna tafanna hjá AstraZeneca megi gera ráð fyrir að það verði mánuði seinna. 

„Að við séum þá að ljúka áætluninni í lok júlí í staðinn fyrir í lok júní. Það er í raun og veru breytingin sem er að eiga sér stað í dag.“

Aðspurð segir Svandís að í lok júlí verði allir á þessum aldri komnir með bólusetningu eða hefðu fengið boð um að mæta í bólusetningu. 

Helmingi færri skammtar á öðrum ársfjórðungi

Áætlað hafði verið að afhenda Evrópuþjóðunum 150 milljónir skammta á öðrum ársfjórðungi en nú er ljóst að aðeins 70 milljónir skammta munu berast á því tímabili, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

Nýjustu afhendingaráætlanir gera ráð fyrir um 60.000 skömmtum frá Pfizer, Moderna og AstraZeneca í aprílmánuði sem munu nýtast um 30.000 manns.