Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vísindaleg martröð Kazuos Ishiguros

Mynd: EPA / EPA

Vísindaleg martröð Kazuos Ishiguros

11.03.2021 - 08:59

Höfundar

Áttunda skáldsaga Kazuos Ishiguros, Klara and the Sun, er sú fyrsta sem hann sendir frá sér eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2017. Bókin hefur nú þegar fengið frábæra dóma, gagnrýnendur tala um meistaraverk.

Nú á dögunum kom út áttunda skáldsaga enska rithöfundarins Kazuo Ishiguro, saga sem á rætur að rekja til barnabókar sem Ishiguro hafði í smíðum, en þetta er nú víst varla saga fyrir börn. Sagan nefnist Klara and the Sun, Klara og sólin. Hún gerist í Bandaríkjunum í fyrirsjáanlegri framtíð, óþægilega nálægri framtíð mögulega, sögumaður er Klara, hún er svokallaður artificial friend, gervivinur eins konar vélmenni með mennskt yfirbragð sem gengur fyrir sólarrafhlöðu, og tilheyrir hópi slíkra vina sem foreldrar festa kaup á til að veita afkvæmum sínum á unglingsaldri félagsskap.

Klara er valin af viðkvæmri ungri stúlku sem nefnist Josie, hún er fjórtán ára, stutthærð, með vinalegt augnaráð, og kemst að því snemma í sögunni að hún er með sjúkdóm sem á mögulega eftir að draga hana til dauða, sama sjúkdóm og varð systur hennar að aldurtila. Skáldsagan tengist verki Ishiguros frá árinu 2005, Never let me go, eða Slepptu mér aldrei, eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur sem kom út það sama ár, þar sem Ishiguro skrifaði meðal annars um klóna og líffæragjafir. Að sögn gagnrýnenda er skyldleiki á milli sögumanna þessarra tveggja skáldsagna, Kathy H. í Never let me go, og Klöru í nýju skáldsögunni, báðar sjá þær heiminn með öðrum hætti en við hin.

Mynd með færslu

Við erum stödd í einhvers konar vísindalegri martröð í þessu nýja verki, Klara and the Sun, undirliggjandi spurning í verkinu: Hvað felst eiginlega í því að vera mennskur? Hún fjallar um vélræna framtíð, mennsku og dauðleik. Áðurnefnd skáldsaga, Slepptu mér aldrei, og sömuleiðis þarsíðasta skáldsaga Ishiguros, The Buried Giant, frá árinu 2015, ólík verk sannarlega, eru báðar einhvers konar dimmar allegóríur eða dæmisögur sem fjalla um hættur sem fylgja eða geta fylgt svokölluðum framförum í vísindum, og það hvaða óþekktu afleiðingar þær geta mögulega haft, en í þessum verkum fjallar Ishiguro líka um það að glata sakleysinu, um leið og hann lofsyngur tilveruna í fábreytni sinni, hið svokallaða venjulega líf.

Gagnrýnandi The Guardian segir meðal annars að nýja skáldsagan, Klara and the Sun, geri tengslin milli áðurnefndra verka enn ljósari, og að mögulega megi lesa þessar þrjár skáldsögur sem eina heild, þríleik, allar leiði þær í ljós fegurð þeirrar staðreyndar að tilvera okkar er brothætt og við erum fyrst og fremst dauðlegar verur, hvað sem allri tækni líður.

Það er skemmst frá því að segja að þessi nýja skáldsaga, Klara and the Sun, Klara og sólin hefur fengið frábæra dóma. Sagan er meðal annars sögð vera meistarverk um lífið, ástina og dauðleikann. Að í henni takist Ishiguro á við allar stóru tilvistarspurningarnar, sagan sé í senn hrífandi og einlæg, og mögulega dýpsta verkið sem Kazuo Ishiguro hefur skrifað fram að þessu. Enn eitt meistaraverkið eftir Ishiguro, segir í fyrirsögn ritdómsins sem birtist í The Guardian í síðustu viku, þar er bókin sögð vera algerlega brilljant. Gagnrýnandi The New York Times tekur í sama streng.

Kazuo Ishiguro lét sig á unga aldri dreyma um að verða rokkstjarna, hann hlustaði síðhærður á Bob Dylan og spilaði á gítar. Ishiguro varð auðvitað ekki rokkstjarna en hann varð hins vegar á ótrúlega skömmum tíma einn virtasti skáldsagnahöfundur samtímans. Hann fæddist í Nagasaki í Japan þann 8. nóvember árið 1954, flutti til Englands með foreldrum sínum fimm ára gamall og ólst upp í Guildford í Surrey þar sem faðir hans starfaði sem haffræðingur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar. Fjölskyldan var í raun alltaf á leiðinni aftur til Japans, en það gerðist aldrei, árin liðu, og Kazuo Ishiguro hefur búið í Bretlandi allt fram á þennan dag, og hann hefur ekki oft snúið aftur til síns gamla heimalands, en lifir eigi að síður líklega í að minnsta kosti tveimur heimum. Ishiguro stundaði nám við háskólann í Kent á áttunda áratug síðustu aldar, og las þar ensku og heimspeki. Árið 1979 skráði hann sig í nám í skapandi skrifum við háskólann í East Anglia, og aðeins þremur árum síðar kom út hans fyrsta skáldsaga, hún heitir A Pale View of Hills. Árið 1986 kom út skáldsagan An Artist of the Floating World, sem Elísa Björg Þorsteinsdóttir hefur þýtt, Í heimi kvikuls ljóss, og fyrir hana hlaut Ishiguro Whitbread-verðlaunin. Og árið 1989 kom síðan út sagan um brytann Stevens, The Remains of the Day, eða Dreggjar dagsins eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Sigðurðar A. Magnússonar. Fyrir það verk hlaut Ishiguro virtustu bókmenntaverðlaun Bretlands, Booker-verðlaunin. Eftir sögunni var eins og allir vita gerð kvikmynd sem fór sigurför um allan heim, með þeim Anthony Hopkins og Emmu Thompson í aðalhlutverkum.

Kazuo Ishiguro var 34 ára og búinn að ná hátindinum. Löngu síðar sagði hann, að hann hefði á þessum tíma í raun og veru verið búinn að skrifa sig út í horn. Ég varð að gera eitthvað allt annað næst, sagði hann, og það gerði hann svo sannarlega. Kazuo Ishiguro tók draumkennda U-beygju, og sendi árið 1995 frá sér skáldsöguna The Unconsoled, eða Óhuggandi, eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Sögu sem fjallar um heimsfrægan píanóleikara sem misst hefur tök á lífi sínu. Óhuggandi hlaut blendnar viðtökur. Sumir sögðu að með þessari draumkenndu sögu hefði Ishiguro skapað nýja tegund af leiðindum, aðrir sögðu og segja enn að þessi saga sé minnislaust meistaraverk. Árið 2000 kom út skáldsagan When we were Orphans, eða Veröld okkar vandalausra, eins og verkið nefnist í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur frá árinu 2002, magnað verk sem fjallar um mann sem leitar uppi æskuslóðir sínar í Shanghai og reynir að leysa ráðgátuna sem umlykur hvarf foreldra hans.

Kazuo Ishiguro tilheyrir kynslóð breskra rithöfunda sem kom fram á sjónarsviðið í upphafi níunda áratugarins. Árið 1983 var hann valinn í hóp bestu rithöfunda Breta af ungu kynslóðinni. Hann var yngstur á svokölluðum Granta-lista, í hópi með höfundum á borð við Salman Rushdie, Ian McEwan, Martin Amis, Julian Barnes og Graham Swift, allt höfundar sem notið hafa lengi virðingar um víða veröld, og eiga það sameiginlegt að skrifa merkileg verk en njóta um leið mikillar hylli.

En um hvað skrifar Kazuo Ishiguro, hvers konar rithöfundur er hann? Jú, hann skrifar skáldsögur um það sem öllu máli skiptir þegar upp er staðið. Hann skrifar um minningar og eftirsjá, um fólk sem reynir að standa sig en situr eigi að síður uppi með þá tilfinningu að það hafi sóað lífi sínu. Hann skrifar um heilindi og sjálfsblekkingu, einstaklinginn andspænis sögunni, um sjálfsafneitun og þjónkun. Hann skrifar um dreggjar dagsins, hann skrifar um manninn sem alla ævi hefur þjónað röngum herra, undir lok ævi sinnar sest hann upp í gamlan Ford-bíl, ekur af stað í leit að ástinni sinni og kemst auðvitað að því að allt er orðið um seinan, hann hefur sóað lífi sínu.

Við skulum hverfa ein 16 ár aftur í tímann, föstudaginn 10. mars, átti sá sem hér talar og skrifar stefnumót við Kazuo Ishiguro í Lundúnum. Þá var sjötta skáldsaga hans, Never let me go, Slepptu mér aldrei, nýkomin út, og allir gluggar allra bókabúða í Lundúnum voru stútfullir af kynningareintökum, þeir voru bókstaflega gulir. Ishiguro var nýbúinn að árita svo sem eins og 2000 eintök, og honum leið eins og hann hefði glatað sál sinni. Við komum okkur fyrir í anddyri hótels við Southampton Row, hann sagði mér meðal annars frá því að hann læsi Hómer og hann læsi Dostojevskí, hann læsi Anton Tsjekhov og Jane Austin. Ég mundi eftir því undir lok viðtalsins að Kazuo Ishiguro hefði einhvern tímann talað í viðtali um sár sem vildi ekki gróa, persóna í skáldsögunni Óhuggandi, The Unconsoled, talar um nákvæmlega það sama, sár sem heillar mann, sár sem maður sækist eftir að snerta, sár sem aldrei grær. Í vissum skilningi skrifar Ishiguro um þetta sár í öllum sínum bókum. Ég spurði Kazuo Isiguro um sárið sem vill ekki gróa, ég spurði hvers vegna hann legði það á sig að skrifa skáldsögur. Og stutta svarið var þetta: til að snerta sárið, sárið sem ekki vill gróa, og þar er huggun ekki langt undan.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Slepptu mér aldrei - Kazuo Ishiguro

Bókmenntir

„Mér finnst ég stundum misnota söguna“

Bókmenntir

Kazuo Ishiguro fær Bókmenntaverðlaun Nóbels