Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vill endurmeta framtíð ferjusiglinga á Breiðafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir ástæðu til að meta að nýju framtíð ferjuþjónustu á Breiðafirði. Þetta segir hann í svari við fyrirspurn Guðjóns S. Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Sigurður Ingi segir að þar sem Klettsháls verði líklega alltaf farartálmi að vetri til og krafa sé um öruggar samgöngur þá sé eðlilegt að fjalla um framtíð ferjusiglinga.

Sigurður Ingi segir í svari sínu að stuðningur ríkisins við rekstur ferju sem siglir yfir Breiðafjörð miði að því að auðvelda samgöngur þar til hægt verður að tryggja samgöngur á vegum allt árið. Núverandi samningur um rekstur Baldurs gildir fram í maí á næsta ári en hann má framlengja um eitt ár. Vegagerðin skoðar nú þegar slíka framlenginu, að því er fram kemur í svarinu.

Guðjón spurði um framtíðaráform rekstursins og hvort ráðherra telji raunhæft að draga úr eða jafnvel leggja ferjusiglingar af. Hann spurði jafnframt hversu miklar samgönguumbæturnar þyrftu að vera umfram það sem nú er stefnt að til að raunhæft sé að draga úr eða hætta ferjusiglingum.

Sigurður Ingi vísar í svari sínu til fundar með sveitarstjórnum á svæðinu síðasta haust. Þar kom fram að breytingar á atvinnulífi kalli á auka þungaflutninga frá fiskeldi á Vestfjörðum til útflutnings. Sá útflutningur má alls ekki við því að flutningaleiðir lokist líkt og Klettsháls gerir reglulega vegna snjóa. Ráðherra segir að gríðarlegt átak hafi verið unnið í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum en að í ljósi breyttra atvinnuhátta eigi þarfagreining með réttu að fara fram að nýju. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV