Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stöðva bólusetningu með AstraZeneca-efninu hér á landi

11.03.2021 - 11:28
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Bólusetning með bóluefni sænsk-breska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca verður stöðvuð hér á landi þar til frekari upplýsingar fást um virkni efnisins. Þetta var ákveðið eftir að fregnir bárust af hugsanlegum tengslum milli bóluefnisins og blóðtappa. Hátt í níu þúsund Íslendingar hafa nú þegar verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca, aðallega heilbrigðisstarfsfólk.

Virðist ekkert benda til orsakasamhengis

„Í morgun bárust fréttir frá Evrópu um að blóðtappar hafi sést í kjölfar bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu í nokkrum löndum Evrópu, og þar af eitt dauðsfall í Danmörku og eitt í Austurríki. Á þeim grunni hefur bólusetning með efninu verið stöðvuð í Danmörku og hugsanlega í Noregi. Þessar upplýsingar komu rétt fyrir fundinn og í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu segir að það virðist ekkert benda til að hér sé um orsakasamhengi að ræða,“ segir Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna og bætir við að hann vonist eftir frekari upplýsingum í dag eða á næstu dögum. 

Hann segir fyrstu upplýsingar ekki benda til þess að blóðtappamyndun sé algengari eftir bólusetningu með AstraZeneca heldur en í samfélaginu almennt. Því þurfti að meta hvort tengsl séu þar á milli, fólk fái áfram ýmsa sjúkdóma hvort sem það er bólusett gegn ákveðnum sjúkdómum eða ekki.

Þórólfur gerir fastlega ráð fyrir því að notkun bóluefnis AstraZeneca verði aðeins stöðvuð í nokkra daga. Hann segist ekki vita til þess að margar tilkynningar hafi borist frá Bretum og öðrum sem hafa notað efnið í mestum mæli.

Undirbúið að fleiri greinist á næstu dögum

Einn greindist með COVID-19 innanlands í gær og sá var í sóttkví

„Sá hafði verið útsettur fyrir smiti og skimaður fyrir nokkrum dögum og þá reyndist hann neikvæður, en í gær reyndist hann jákvæður. Við þurfum að vera undir það búin að fleiri greinist á næstunni sem eru í sóttkví. En við viljum auðvitað síður að fólk greinist utan sóttkvíar,“ segir Þórólfur. 

Fimm afleidd smit tengjast einu landamærasmiti og öll virðast vera af völdum breska afbrigðisins. 100-200 manns hafa farið í sóttkví vegna þessa.

Ekki tilefni til hertra aðgerða eins og stendur

Þórólfur segir ekki tilefni til þess að leggja til harðari aðgerðir eins og stendur. Ný reglugerð á að taka gildi 18. mars og Þórólfur hefur í smíðum nýtt minnisblað með tillögum um næstu skref. „En ég held að það sé nokkuð ljóst að ég mun ekki leggja til neinar tilslakanir á næstunni, allavega ekki í þessum tillögum núna,“ segir hann.

„En ef fólk fer að greinast utan sóttkvíar þá að sjálfsögðu þarf að skoða hvort þörf sé á frekari harðari aðgerðum,“ bætir hann við. 

Góðar líkur eru á að það hafi tekist að ná utan um hópsýkinguna frá síðustu helgi, segir Þórólfur. „En það er þó ekki að fullu ljóst því það getur liðið upp undir vika þar til við förum að sjá veikindi,“ segir hann.