Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sterk taug á milli Árna og Baldurs

11.03.2021 - 18:46
Mynd: Landhelgisgæslan / RÚV
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er kominn að bilaðu Breiðafjarðarferðjunni Baldri mitt á milli Flateyjar og Stykkishólms. Til stendur að láta Árna draga Baldur að landi en ekki hefur verið ákveðið hvernig Baldur kemst að höfninni í Stykkishólmi. Skipverjum tókst á sjöunda tímanum að koma taug á milli skipanna.

Varðskipið Þór er á leiðinni vestur auk þess sem þyrlusveit gæslunar verður tiltæk þar. Árni Friðriksson er kominn með ferjuna í tog. Auk þess er björgunarbátur Landsbjargar á staðnum.  Elsa María Guðlaugs Drífudóttir fréttamaður á Vesturlandi er á bryggjunni í Stykkishólmi og hefur fylgst með aðgerðum dagsins.  

„Ég var að tala við þá hjá Sæferðum sem reka ferjuna og það á að fara mjög varlega með að toga ferjuna í land svo þetta eru alveg 3-4 tímar sem það á eftir að taka. Það er mjög slæmt veður líka, það er hátt í 18 metrar á sekúndu úti á Breiðafirði og erfiðar kringumstæður svo það er um að gera að hafa varann á,“  sagði Elsa María í fréttum klukkan 18. 

Varðskipið þór kemur klukkan 10 í kvöld og verður þá til taks og ef eitthvað fer úrskeiðis. Von er á dráttarbáti frá Reykjavík sem er væntanlegur í nótt sem mun taka Baldur í tog inn í höfnina í Stykkishólmi. Bæði Þór og Árni Friðriksson eru of stórir til að koma Baldri að bryggju. Það þarf sérstakan bát til að draga hanna inn. Búið að leggja til að það verði ekki gert eins og er.

Þá er það til skoðunar að hluti farþeganna verði fluttir frá borði með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Verið að meta aðstæður, bæðir út frá áhöfninni á þyrlunni og skipstjóri er að meta hvort það séu aðstæður til að gera það. Komi til þess verða aðeins almennir farþegar fluttir frá borði, ekki áhöfnin. 

Kallar eftir að Herjólfur III flytji vestur

Ferðin í dag var aukaferð vegna þess að Klettsháls hefur verið lokaður vegna ófærðar og veðurs. Rætt var við einn farþega um borð í Baldi fyrr í dag, Einar Sveinn Ólafsson, en hann er verksmiðjustjóri Kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

„Ef ekki tekst að opna Klettsháls þá verður laxaslátrun stöðvuð þar til að Klettsháls opnar. Þannig að þetta er áfall fyrir atvinnulífið á svæðinu. Nú verða sveitarstjórnarmenn og þeir sem ráða ríkjum að stappa niður fæti og setja Herjólf hingað strax. Þetta er í annað skiptið sem skipið bilar, þetta virðist vera  sama bilun. Þetta tók nokkrar vikur síðast og nú yfir háveturinn er þetta lífæðin fyrir sunnanverða Vestfirði til að geta haldið atvinnulífi og lífinu gangandi, vatn og vistir fyrir íbúana,“ segir Einar.

Fréttastofu hafa borist myndir og myndskeið frá farþegum. Þeir virðast hafa það gott um borð í Baldri.

Landhelgisgæslan birti í kvöld myndir og myndskeið af leiðangrinum. Hluti þeirra mynda sem eru í myndskeiðinu eru úr þeim leiðangri.

Fréttin hefur verið uppfærð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd: RÚV / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV