Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skólahald fellt niður á Hólmavík og ófært innanbæjar

11.03.2021 - 10:19
Mynd: Esther Ösp Valdimarsdóttir / Aðsent
Ófært er innanbæjar á Hólmavík og skólahald var slegið af í morgun. Vegum var lokað víða um land í gær á Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Því hefur nú slotað syðst en er enn töluvert slæmt á norðvestanverðu landinu.

“Þetta hefur oft verið svipað, en þetta er svaka snjómagn. Það var alveg autt í gærkvöldi,” segir Esther Ösp Valdimarsdóttir sem býr á Hólmavík. Slæmt skyggni er á Ströndum, eins og sést á myndefninu í þessari færslu.

Mynd: Esther Ösp Valdimarsdóttir / Aðsent

Esther segir að ákvörðun um að fella niður skóla og leikskóla hafi verið tekin í morgun og að fólk sé ekki að mæta í vinnu nema það sé bráðnauðsynlegt.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vegagerðarinnar er beðið með að moka á milli byggðarlaga á Ströndum. Víðast á Vestfjörðum sé snjóþekja eða hálka og einhver skafrenningur. Allar helstu leiðir á Vestfjarðakjálka eru ýmist lokaðar eða ófærar. Þá er búið að loka Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Mynd: Esther Ösp Valdimarsdóttir / Aðsent