Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skjálfti 4,6 vegna spennubreytinga vestan Grindavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: Ellert Grétarsson
Jarðskjálftinn sem reið yfir klukkan 8:53 og fannst vel á suðvesturhorni landsins mældist 4,6 að stærð. Hann átti upptök sín talsvert vestan við umbrotasvæðið og kvikuganginn undir Fagradalsfjalli. Náttúruvársérfræðingar á vakt Veðurstofunnar greina frá þessu í erindi til fjölmiðla.

Skjálftinn átti upptök sín um sex kílómetra vestan við Grindavík og tvo kílómetra sunnan við Sandfellshæð í Eldvarpahrauni á Reykjanesskaga.

Þau Salóme Jórunn Bernharðsdóttir og Bjarki Kaldalóns Friis á náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands gera ráð fyrir að skjálftinn hafi orðið vegna spennubreytinga á svæðinu vestan við kvikuganginn sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli.

Skjálftinn fannst nokkuð víða. Hann fannst vel í Borgarnesi, á Akranesi og Hvanneyri og á Hvolsvelli.

Skjálftavirknin á Reykjanesskaga undanfarna daga og vikur hefur að mestu verið bundin við kvikuganginn undir Fagradalsfjalli og Þráinsskjaldarhrauni. Þar hafa skjálftarnir flestir orðið.

Skjálftavirknin fyrir um tveimur vikum hófst á nokkuð stóru svæði í Brennisteinsfjöllum, í Krýsuvík og Móhálsadal, í Trölladyngju, í Fagradalsfjalli og að Keili og svo í Svartsengi. Skjálftavirknin hefur svo þrengst í kringum kvikuganginn undir Fagradalsfjalli.