Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segjast hafa mætt tómlæti og áhugaleysi yfirvalda

Mynd með færslu
 Mynd: eyjar.net
Sveitarfélögin Vestmannaeyjar og Fjarðabyggð hafa óskað eftir frestun uppsagna samninga um rekstur hjúkrunarheimila sinna um einn mánuð eða til 1. maí næstkomandi. Jafnframt hafa bæjaryfirvöld óskað eftir því að velferðarnefnd Alþingis skerist í málið og leysi úr þeirri óvissu þegar í stað.

Segir í fréttatilkynningu að allt frá því að þessi sveitarfélög sögðu upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands hafi þau mætt tómlæti og áhugaleysi heilbrigðisyfirvalda vegna málsins.  Verði þetta niðurstaðan kalli það á hópuppsagnir og óvissu í þessum landsbyggðarsveitarfélögum, þar sem mikill meirihluti eru kvennastörf við umönnun viðkvæmra einstaklinga.

„Allt frá því sveitarfélögin sögðu upp samningunum hefur ferlið í kringum skilin verið gert eins torsótt og mögulegt er og sveitarfélögin sem um ræðir hafa mætt tómlæti og áhugaleysi heilbrigðisyfirvalda vegna málsins. Þá eru störf og réttarstaða starfsfólks umræddra stofnana tryggð við aðilaskipti á Akureyri og Hornafirði, en nú er ljóst að ekki er vilji til slíks hvað varðar Vestmannaeyjar og Fjarðabyggð. Heilbrigðisráðherra hefur val um að láta lög um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti gilda og því hlýtur það að vera val hennar að slíkt verði ekki í áðurnefndum sveitarfélögum. Verði slíkt ofan á kallar það á hópuppsagnir og óvissu í þessum landsbyggðarsveitarfélögum, þar sem mikill meirihluti eru kvennastörf við umönnun okkar viðkvæmustu einstaklinga. Sveitarfélögin Vestmannaeyjar og Fjarðabyggð sætta sig engan veginn við þessa stöðu mála. Hafa því bæjarráð þeirra beggja samþykkt að óska eftir frestun á uppsögn samninga um rekstur hjúkrunarheimila sinna um einn mánuð, til 1. maí nk. Jafnframt hafa bæjaryfirvöld óskað eftir því við velferðarnefnd Alþingis að hún skerist í málið og leysi úr þessari óvissu þegar í stað. Munu sveitarfélögin gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja sömu réttindi og hjá starfsfólki annarra hjúkrunarheimila sem verið er að flytja milli rekstraraðila. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að það virðist ríkinu auðvelt að láta umrædd lög gilda þegar verið er að flytja starfsemi frá ríki til sveitarfélaganna og tryggja þannig störf og réttindi starfsfólks, en öðru gegnir þegar verið er að flytja starfsemi í hina áttina. Óboðlegt er að slík mismunun skuli eiga sér stað,“ segir í sameiginlegri tilkynningu.

 

Þingfundur á Alþingi hófst á umræðu um fundarstjórn þar sem þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýndu stjórnvöld harðlega fyrir að gagnrýna formann velferðarnefndar fyrir  að brjóta trúnað um stöðuna á rekstri hjúkrunarheimila, staðan þar sé grafalverleg og snerti tugi starfa. Ekki sé léttvægt þegar kvartað sé undir ríku eftirlitshlutverki Alþingis eins og stjórnvöld hafi gert.