Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Notkun AstraZeneca bóluefnis hætt í bili í 6 ríkjum

11.03.2021 - 11:11
Erlent · COVID-19 · Danmörk · Evrópa
epa08968294 (FILE) - The AstraZeneca Covid-19 vaccine in a refrigerator at Robertson House in Stevenage, Hertfordshire, Britain, 11 January 2021 (reissued 27 January 2021). AstraZeneca has rejected EU's criticism of its vaccine rollout process, after the company had announced delays in delivering the agreed doses to the bloc.  EPA-EFE/JOE GIDDENS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA
Í sex ríkjum í Evrópu hefur verið ákveðið að gera hlé á bólusetningu gegn COVID-19 með bóluefni AstraZeneca. Þetta eru Danmörk, Austurríki, Eistland, Litháen, Lettland og Lúxemborg. Á vef Landlæknisembættis Danmerkur segir að þetta sé gert vegna tilkynninga um blóðtappa hjá fólki sem fengið hafi bólusetninguna. Ekki sé þó vitað hvort tengsl séu þar á milli, þetta sé gert í varúðarskyni.

Uppfært klukkan 16:15: Í öllum löndunum sem nefnd eru að ofan, nema í Danmörku, var hætt að nota bóluefni með ákveðnu lotunúmeri. 

Þá greinir norska ríkisútvarpið, NRK, frá því að í borginni Björgvin í Noregi hafi verið ákveðið að doka við með bólusetningu með AstraZeneca. 

Yfirvöld í Austurríki tilkynntu um helgina að notkun bóluefnis AstraZeneca, með ákveðnu lotunúmeri, yrði hætt í bili, eftir að 49 ára gömul kona lést vegna blóðtappa tíu dögum eftir að hafa fengið bólusetningu. Greint var frá því í EuroNews í gær að Lyfjastofnun Evrópu, The European Medicines Agency, hafi lýst því yfir að engar vísbendingar væru um að tengsl væru á milli bólusetningarinnar og blóðtappans.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir