Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fresta þurfti bólusetningu vegna óveðurs

11.03.2021 - 14:05
Norðurárdalur. - Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Fimmtíu manns höfðu verið boðaðir í bólusetningu við COVID-19 á vegum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Búðardal dag en henni þurfti að fresta vegna óveðursins. Brattabrekka og Holtavörðuheiði hafa verið lokaðar í dag og ekki var hægt að flytja bóluefnið frá Akranesi til Búðardals. Ef veður og færð leyfir fer bólusetningin fram á morgun. Hún er fyrir fólk fætt frá 1937 til 1946. Gular veðurviðvaranir hafa verið framlengdar.

Rætt var við Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, fréttamann, í fréttatímanum og var hún stödd í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún sagði að í Borgarnesi í morgun hafi verið logn og snjólaust. Hún hafi keyrt upp Norðurárdalinn og að Bifröst og að það hafi verið eins og að aka á vegg. Mikið hríðarveður var þar og lélegt skyggni. 

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í fréttatímanum að veðrið gangi ekki niður alveg strax. Búið er að framlengja gular hríðarviðvaranir fyrir Breiðafjörð, Strandir og Norðurland eystra til miðnættis. Á Vestfjörðum hefur vindhraðinn verið einna mestur og þar hefur viðvörunin verið framlengd til klukkan sex í fyrramálið. 

Töluvert hefur lægt á norðausturhluta landsins og þar rann gul veðurviðvörun út um hádegi. Þorsteinn segir að það eigi eftir að bæta í snjókomuna þar seinni partinn í dag, jafnvel einnig fram á kvöld. Þar verður mun skaplegra veður á morgun, samkvæmt veðurspá.

Mynd með færslu
 Mynd: vedur.is