Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fellur mögulega frá kröfum um lágmarksfjölda íbúa

Mynd: Skjáskot / RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segist tilbúinn til þess að falla frá ákvæði um lögbundinn lágmarksíbúafjölda í frumvarpi um sameiningu sveitarfélaga. 1.000 íbúa lágmarksfjöldi yrði þá frekar viðmið en lögbundin skylda.

Í frumvarpi til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum segir að lágmarks íbúafjöldi sveitarfélags sé 1.000 íbúar. Hafi íbúafjöldi verið lægri en það í þrjú ár samfleytt skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það öðru eða öðrum nærliggjandi sveitarfélögum.

20 sveitarfélög sameinuðust gegn frumvarpinu

Þessi lögbundna krafa er mjög umdeild - meðal annars sameinuðust tuttugu smærri sveitarfélög í mótmælum gegn því og vilja að fallið verði frá þessu ákvæði. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist tilbúinn til að skoða málið. „Þannig að ég hef bara opnað á það að vera tilbúinn að leggja í púkkið hugmyndir um það hvernig við gætum kannski náð markmiðunum fram. Klárað frumvarpið án þess að sú frumkvæðisskylda liggi á ráðherra að grípa til einhverra aðgerða, nái menn ekki einhverjum tilteknum íbúalágmörkum.“

Komi til greina að fella út ákvæði um lágmarksíbúafjölda

Því komi til greina að fella úr frumvarpinu að ráðherra þurfi að bregðast við og skikka sveitarfélög til sameiningar. Hætt verði þar með við þessa lögþvinguðu sameiningu. „Já, það er þessi frumkvæðisskylda sem er skilgreind í fimmtu grein laganna sem mér finnst koma vel til greina að fella út. Í því skyni að ná meiri samstöðu um markmið.“

Lágmarksíbúafjöldi verði frekar markmið en skylda

Lágmarksíbúafjöldi verði þá frekar markmið en skylda. Ráðherra segist sammála hugmyndum smærri sveitarfélaga um að taka til umræðu eftir hverjar kosningar sveitarfélög sem meðal annars ná ekki lengur tilteknu lágmarki, að sinna skilgreindri þjónustu eða fleiri þáttum og meta hvort ástæða sé til að þau sameinist öðrum. “Þannig að ég er tilbúinn til að skoða alla þessa þætti.“ segir Sigurður Ingi.