
Ekki hægt að útiloka sprengigos í sjó
Gufustrókur myndi sjást á ratsjánni
Kvikan situr grunnt og vísindamenn gera ráð fyrir að gos geti hafist fyrirvaralaust án mikilla jarðhræringa. Búið er að koma fyrir vefmyndavélum við líklegar gosstöðvar og færanleg veðurratsjá sem nýlega var sett upp á Strandarheiði á að greina gosið um leið. „Þegar hraunið brýst í gegnum jarðlögin þá gæti grunnvatnið gufað upp í flýti og þá fáum við gufustrók sem veðurratsjáin sér greinilega og með henni þá getum við staðsett hraunið, hvar það kemur upp,“ segir Hermann Arngrímsson, sérfræðingur í mælarekstri hjá Veðurstofu Íslands.
Ratsjáin greinir allar agnir í lofthjúpnum, getur greint sundur úrkomu og agnir á föstu formi. Hún tekur myndir á fimm mínútna fresti og sendir gögnin beint á Veðurstofuna. Ef það gýs yfirhöfuð er búist við hraungosi, ekki gjóskugosi. Í slíkum gosum segja svona ratsjár fyrir um hvar er öruggt að fljúga og hvar ekki. Ef ratsjáin hefði verið komin þegar gaus í Eyjafjallajökli árið 2010 hefðu áhrif gossins á flugumferð verið mun minni. „Tækið sér með hárri upplausn hvar gosefni eru í andrúmsloftinu og þar af leiðandi getum við fylgst með því og látið flugyfirvöld vita hvar er öruggt að fljúga og hvar ekki,“ segir Hermann.
Eru með Nátthaga í gjörgæslu
Sérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast vel með hreyfingum kvikugangsins og prófa ný líkön þegar nýjar upplýsingar berast. Kvikugangurinn virðist nú vera að færast til suðurs, um 500 metra á sólarhring, og vísbendingar eru um að hann teygi sig að Nátthaga, dal austan við Borgarfjall. „Eins og staðan er í dag þá er mesta skjálftavirknin þar, það er svæðið sem við erum með í gjörgæslu núna og við erum að keyra ný líkön fyrir það svæði,“ segir Bergrún Arna Óladóttir, gjóskulagafræðingur á Veðurstofu Íslands. „Ég myndi halda að það væri líklegt að það myndi reyna að koma þar sem væri minnst fyrirstaða en það er erfitt að segja nákvæmlega hvar það mun koma upp. Þó að við séum með fullt af góðum módelum og séum að reyna að fylgjast með þessu þá verðum við að vera tilbúin að takast á við það sem að höndum ber.“
Líkönin gera ráð fyrir að tveggja kílómetra gossprunga opnist, hraunið myndi svo fylgja landslaginu. Hraðinn á því fer eftir hitastigi þess, efnasamsetningu og hvort það nær að mynda lokaðar hraunrásir eða ekki. Ef hraun kemur upp sunnan við Fagradalsfjall rennur það líklega í suður og í sjó fram í Hraunsvík. Það væri þá að minnsta kosti sex klukkustundir að ná niður á Suðurstrandarveg og jafnvel tólf.
Gjóska myndi fylgja gosi í sjó
Bergrún segir að líkönin séu gagnleg, en nauðsynlegt að vera við öllu búin. „Við verðum bara að reyna að horfa á allt sem er mögulegt og það er náttúrulega alveg mögulegt að gangurinn gangi þarna áfram, opnist þá út í sjó og það komi upp sprengigos.“ Það myndi þá leiða til öskufalls en slík gos eru þó ekki þekkt á svæðinu. „Við myndum þá geta fylgst með því ef gangurinn er farinn að færa sig nær sjónum, þá fer sú sviðsmynd að verða sterkari inni í öllum viðbrögðum en við erum ekki einu sinni komin með eldgos, þannig að,“ segir Bergrún. Það sé best að taka einn dag í einu.