Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ekkert ferðaveður, snjóstormur, lokanir og kuldi

11.03.2021 - 08:12
Mynd með færslu
Ófærð á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni.  Mynd: Landsbjörg
Leiðindaveður og ófærð er nú í flestum landshlutum með hvössum vindi, stórhríð, skafrenningi og kulda. Vegir eru víða lokaðir og ekkert ferðaveður, sérstaklega á Norðurlandi. Búast má við léttari útgáfu af sama veðri á morgun, segir veðufræðingur. Leikskólinn og grunnskólinn á Blönduósi verða lokaðir í dag.

Holtavörðuheiðin lokuð

Vegurinn um Kjalarnes var opnaður aftur í morgun, en Holtavörðuheiðin er lokuð. Á Norðurlandi er víðast ófært og stórhríð og bíður Vegagerðin með mokstur þar til veðrið skánar. Þó er verið að moka á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, sem eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Sömuleiðis er verið að moka Vatnsskarð og Öxnadalsheiði.

Barnabær lokuð

Þau skilaboð bárust í morgun frá Blönduósi að skólahald fellur niður í grunnskólanum þar í dag og sömuleiðis verður leikskólinn Barnabær lokaður vegna veðurs og færðar innanbæjar. Á Vesturlandi er hálka og hvassviðri með skafrenningi á fjallvegum og slæmu skyggni. Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir vestan- og norðanvert landið og verður fram á kvöld. Óvissustig er í Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu og fjallvegir á Vestfjörðum lokaðir. Mjög hvasst er undir Ingólfsfjalli og ferðum strætó til og frá Selfossi seinkar. 

Léttari útgáfa á morgun

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni heldur þetta veður áfram í dag, en svo er von á annarri djúpri lægð til okkar að austan, þannig að Norðlendingar mega áfram búast við norðlægum áttum með snjókomu inn í helgina. Það verður áfram hvasst í dag, mest á Vestfjörðum og snjókoma um allt norðan- og austanvert landið en rigning eða slydda við ströndina. Svo segir Veðurfræðingur að búast megi við dálítið léttari útgáfa af sama veðri svo á morgun sem gengur að mestu niður á laugardaginn.