Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:
Ég gleymi því sennilega aldrei þegar ég sá Steina, íslenska piparsveininn, leiða Jennýju sem sigraði hjarta hans í þáttunum, í Kringlunni rétt áður en þau hættu saman eftir örstutt samband sem var ávöxtur raunveruleikaþáttarins sem líklega verður ekki leikinn aftur eftir á Íslandi. Ég var algjörlega stjörnulostin enda forfallinn aðdáandi raunveruleikasjónvarps, eins og þess sem hér er til umfjöllunnar, þess göfuga listforms sem er einhvers konar samblanda af sviðsetningu, heimatilbúnu drama, leik og alvöru lifandi karakterum. Ég hef líklega grátið yfir hverjum einasta þætti í nýju seríunum af Queer Eye for the Straight Guy, er enn að jafna mig á því þegar drag-drottningarnar Shangela og Manila Luzon voru sviknar af drag-systrum sínum, stungnar í bakið og sendar heim í All stars-þáttum RuPauls. Ég veit meira hvað er að frétta af keppendum í amerísku Bachelor-þáttunum en mörgum vinum mínum.
Gleðisveit Ingólfs og Bikinímódel Íslands
Íslenskt raunveruleikasjónvarp hefur hins vegar allt of sjaldan ratað á skjáinn en í hvert sinn sem ég hef fengið veður af því hef ég fylgst með. Ég minnist þess þegar Bikinímódel Íslands í umsjá Ásdísar Ránar voru þættir í anda Americas Next Top Model og voru sýndir árið 2006 og eðli málsins samkvæmt ekki oftar. Árið 2003 voru sýndir yndislega lélegir þættir sem hétu hljómsveit Íslands um sveitaballahljómsveitina Gleðisveit Ingólfs á ferð um landið ásamt grúpppíuhópi sem ég var alveg til í að tilheyra. Þeim þáttum var fylgt eftir með Nylon-sjónvarpsþáttunum um stúlknasveitina goðsagnakenndu. Það var sjokk fyrir okkur sem fylgdumst með þegar Emilía hætti.
Íslenska útgáfan af Piparsveininum, sem minnst var á áðan, leit svo dagsins ljós 2005 og sjónvarpsstöðin Sirkus færði okkur Ástarfleyið með hössli og djammi úti á hafi og Skjár einn Djúpu laugina sem átti að snúast um að velja skemmtilegasta keppandann í blindni en svo fann einhver upp á trixinu að hafa vin í salnum sem SMSaði númerinu á sætasta keppendanum sem oft var valinn án þess að nein svör hefðu vakið aðdáun spyrilsins. Fá pör urðu til með þessu fyrirkomulagi en ef ég man rétt gátu þættirnir af sér að minnsta kosti eitt samband og í heiminn fæddustu Djúpulaugarbörn. Í fjarveru samfélagsmiðla var hægt að fylgjast með áframhaldandi lífi keppenda og þeirra afrekum í tilhugalífi eða skakkaföllum í skemmtanalífinu í slúðurbleðlinum Séð og heyrt. Veislan, dramað, hösslið og táradalurinn voru í algleymi í árdaga Sirkuss og Skjás eins en svo fóru slíkir þættir að hverfa af skjánum og sjónvarpsstöðvarnar kvöddu.
Kunnuglegir karakterar misstíga sig
„Góður“ raunveruleikaþáttur, og nú set ég góður innan gæsalappa því það má auðveldlega efast um gæði flestra þeirra sem hér hafa varið taldir upp, fær áhorfandann til að líða eins og hann, rétt á meðan, þekki fólkið persónulega og veitir löngun til að vita meira, lætur fólki líða eins og bandamanni þeirra eða óvini. Augnablikin eru dýrmætust þegar persónurnar fella grímuna og segja eitthvað sorglegt, fyndið, æla, gráta, kyssast, hlæja, gera eitthvað vandræðalegt eða einlægt og láta áhorfandanum líða unaðslega og óþægilega, gera persónurnar kunnuglegar.