Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó

Mynd: Æði / Skjáskot

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó

11.03.2021 - 14:00

Höfundar

„Vittu til. Þú munt fyrr en varir líklega fara að sakna vinanna þriggja og kíkja á þá á Instagram til að vita hvað þeir eru að brasa því þeir eru, eins og þættirnir, algjört æði,“ segir Júlía Margrét Einarsdóttir gagnrýnandi Lestarinnar um raunveruleikaþáttinn Æði sem sýndur er á Stöð 2.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Ég gleymi því sennilega aldrei þegar ég sá Steina, íslenska piparsveininn, leiða Jennýju sem sigraði hjarta hans í þáttunum, í Kringlunni rétt áður en þau hættu saman eftir örstutt samband sem var ávöxtur raunveruleikaþáttarins sem líklega verður ekki leikinn aftur eftir á Íslandi. Ég var algjörlega stjörnulostin enda forfallinn aðdáandi raunveruleikasjónvarps, eins og þess sem hér er til umfjöllunnar, þess göfuga listforms sem er einhvers konar samblanda af sviðsetningu, heimatilbúnu drama, leik og alvöru lifandi karakterum. Ég hef líklega grátið yfir hverjum einasta þætti í nýju seríunum af Queer Eye for the Straight Guy, er enn að jafna mig á því þegar drag-drottningarnar Shangela og Manila Luzon voru sviknar af drag-systrum sínum, stungnar í bakið og sendar heim í All stars-þáttum RuPauls. Ég veit meira hvað er að frétta af keppendum í amerísku Bachelor-þáttunum en mörgum vinum mínum. 

 

Gleðisveit Ingólfs og Bikinímódel Íslands

Íslenskt raunveruleikasjónvarp hefur hins vegar allt of sjaldan ratað á skjáinn en í hvert sinn sem ég hef fengið veður af því hef ég fylgst með. Ég minnist þess þegar Bikinímódel Íslands í umsjá Ásdísar Ránar voru þættir í anda Americas Next Top Model og voru sýndir árið 2006 og eðli málsins samkvæmt ekki oftar. Árið 2003 voru sýndir yndislega lélegir þættir sem hétu hljómsveit Íslands um sveitaballahljómsveitina Gleðisveit Ingólfs á ferð um landið ásamt grúpppíuhópi sem ég var alveg til í að tilheyra. Þeim þáttum var fylgt eftir með Nylon-sjónvarpsþáttunum um stúlknasveitina goðsagnakenndu. Það var sjokk fyrir okkur sem fylgdumst með þegar Emilía hætti.

Íslenska útgáfan af Piparsveininum, sem minnst var á áðan, leit svo dagsins ljós 2005 og sjónvarpsstöðin Sirkus færði okkur Ástarfleyið með hössli og djammi úti á hafi og Skjár einn Djúpu laugina sem átti að snúast um að velja skemmtilegasta keppandann í blindni en svo fann einhver upp á trixinu að hafa vin í salnum sem SMSaði númerinu á sætasta keppendanum sem oft var valinn án þess að nein svör hefðu vakið aðdáun spyrilsins. Fá pör urðu til með þessu fyrirkomulagi en ef ég man rétt gátu þættirnir af sér að minnsta kosti eitt samband og í heiminn fæddustu Djúpulaugarbörn. Í fjarveru samfélagsmiðla var hægt að fylgjast með áframhaldandi lífi keppenda og þeirra afrekum í tilhugalífi eða skakkaföllum í skemmtanalífinu í slúðurbleðlinum Séð og heyrt. Veislan, dramað, hösslið og táradalurinn voru í algleymi í árdaga Sirkuss og Skjás eins en svo fóru slíkir þættir að hverfa af skjánum og sjónvarpsstöðvarnar kvöddu.

Kunnuglegir karakterar misstíga sig

„Góður“ raunveruleikaþáttur, og nú set ég góður innan gæsalappa því það má auðveldlega efast um gæði flestra þeirra sem hér hafa varið taldir upp, fær áhorfandann til að líða eins og hann, rétt á meðan, þekki fólkið persónulega og veitir löngun til að vita meira, lætur fólki líða eins og bandamanni þeirra eða óvini. Augnablikin eru dýrmætust þegar persónurnar fella grímuna og segja eitthvað sorglegt, fyndið, æla, gráta, kyssast, hlæja, gera eitthvað vandræðalegt eða einlægt og láta áhorfandanum líða unaðslega og óþægilega, gera persónurnar kunnuglegar.

Tik-tok dansar, varafyllingar og Smáralind

Og nú loksins fáum við einmitt svoleiðis þátt. Fyrri þáttaröð raunveruleikaþáttanna Æði í leikstjórn Jóhanns Kristófers Stefánssonar kom út í fyrra og þá var fylgst með áhrifavaldinum og Akureyringnum Patreki Jaime. Í þáttunum má fylgjast með honum fara ásamt vinum sínum fara út á lífið, dansa Tik tok-dansa, hanga í Smáralind, elta draumana til Danmerkur, mistakast, fara í neglur og varafyllingu, beila á stelpunum, elda nagga, blanda kokteila og bjóða í matarboð. Í fyrri seríunni var Patrekur í öndvegi en vinir hans, Binni Glee og Bassi Marage voru í aukahlutverkum. Allir eru þeir miklir persónuleikar með óaðfinnanlegt hár, farða, fullkomna þekkingu á nýjustu poppsmellunum og óskiljanlegt og framandi tungutak kynslóðar sem ég tilheyri ekki og ég hef sjaldan fundið það jafnsterkt og þegar ég horfði á þessa þætti.

Leikið eða ekki?

Það er sem fyrr segir erfitt að greina á milli þess hvað er raunverulegt, hversu raunverulegt það er og það eru góðar líkur á að ég hafi oft trúað að eitthvað hafi verið raunverulegt í þáttunum sem var algjörlega sviðsett. En í því felst einmitt galdurinn. Ég er ekki frá því að danski umboðsmaður sem ginnti piltana til Danmerkur á sinn fund hafi til dæmis hljómað kunnuglega, og stundum þegar aukakarakterar dúkkuðu upp fannst mér senurnar augljóslega leiknar og þær voru kannski sístar. Sterkustu stundirnar í fyrri seríunni var það sem virtist ekki sviðsett.

Skilnaður foreldra og ótti við höfnun blóðföður

Það var gaman að fylgjast með Patreki borða kvöldmat með fósturföður sínum og yngri bræðrum en sárt að heyra þegar hann greindi frá upplifun sinni af skilnaði foreldra sinna. Að sjá samband hans við fjölskylduna sem er greinilega þétt, og stuðningsríkan vinahóp hjálpa honum að búa sig undir að halda til Chile til að hitta blóðföður sinn sem hann hafði ekki séð árum saman og óttann sem blundaði í honum yfir að faðir hans myndi mögulega ekki taka honum eins og hann er, snart mig. Þessar senur eru mikilvægar, eins og þeir sem almennt horfa á raunveruleikaþætti þekkja.

Of mikið „beef“ fyrir mann á ketó

Það er mannlega hliðin, meira að segja í þáttum sem eiga fyrst og fremst að vera fyndnir, sem togar okkur nær. Aðalkarakterarnir þurfa að vera sjarmerandi, kunnuglegir en samt einhvern veginn ósnertanlegir og framandi til að við séum til í að fylgja þeim í gegnum sögu þar sem lítið gerist. Og Patrekur hefur þetta allt til brunns að bera.

Í annarri þáttaröð sem nú er í sýningu á Stöð 2 taka vinirnir Binni Glee og Bassi Marage enn meira pláss og er það vel. Mikill fögnuður verður þegar hinn heimakæri Binni Glee yfirgefur heimaslóðir á Akureyri og flytur í borg óttans. Bassi reynir fyrir sér sem rappstjarna, Patrekur fótbrýtur sig þegar hann reynir að dansa súludans í stripparahælum og trúlofast í hjartnæmu atriði, leitar sér að umboðsmanni og ákveður að gefa út kokteilabók. Og það er aldrei langt í dramað. Það sýður upp úr í bústaðaferð þar sem drengirnir blanda sér ótalmarga kokteila og Patti og Bassi rífast með tilheyrandi ælu og hurðaskellum, svo hinum stóíska Binna Glee verður nóg um „beefið“ enda er hann á ketó. 

Söknuður eftir æðibitunum

Allt er þetta hin besta skemmtun en er hvorki til þess fallið að dýpka skilning á veröldinni eða auðga hugann, nema síður sé. Eftir að hafa horft á alla þættina í einni beit, þar sem ég sat aðeins ringluð í sófanum rifjaði ég upp orð heimspekikennarans míns Páls Skúlasonar sem sagði eitt sinn við nemendur að það væri ekki hyggilegt að menga hugann of mikið með innantómri afþreyingu.

Með orð hans í huga mæli ég eindregið með því að fá sér frekar örlítið smakk í einu af þáttunum Æði en að horfa á þá í einni beit því annars ferð þú hlustandi góður jafnvel að fá low-key-sjokk yfir hvað Patti og vinir hans eru æði og slayin' chile. Og þessi setning fer að hafa merkingu fyrir þér og þú óttast að tala aldrei aftur eðlilega. En þá er um að gera að standa upp frá sjónvarpinu og hreinsa hugann af dramanu í vinahópnum, varafyllingunum, kokteilakvöldunum og hurðaskellunum því um stund finnst þér þú kannski vera líkt og Patrekur kominn með upp í kok af Bassa Marage í bili, en vittu til. Þú munt fyrr en varir líklega fara að sakna vinanna þriggja og kíkja á þá á Instagram því þeir eru allir þrír, eins og þættirnir, algjört æði.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Hver elskar barnið sitt mest?

Sjónvarp

Sjálfsfróun sænsku menningarelítunnar

Sjónvarp

Langsótt draugatangó sem eykur teþorsta