Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tuttugu konur og börn dvalið kvennaathvarfi á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn samtaka um kvennaathvarf hefur ákveðið að framlengja tilraunaverkefni með kvennaathvarf á Akureyri út árið 2021. Frá því athvarfið opnaði um mitt síðasta ár hafa 20 konur og börn dvalið í húsinu í rúmlega 400 daga.

Tilraunaverkefni til hálfs árs

Í lok ágúst í fyrra var neyðarathvarf fyrir konur og börn, sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis, opnað á Akureyri. Það eru Samtök um kvennaathvarf, Aflið og Bjarmahlíð sem standa athvarfinu sem opnað var í tilraunaskyni til hálfs árs. Signý Valdimarsdóttir er verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Norðurlandi. 

Reiknar með að athvarfið sé komið til að vera

„Þetta var opnað sem tilraunaverkefni og átti að ljúka þá núna um mánaðamótin en stjórn samtaka um kvennaathvarf hefur þá samþykkt núna að þetta verði áfram sem tilraunaverkefni út áið 2021 og við reiknum svo sem að þetta sé komið til þess að vera en það voru bara ekki forsendur til að fara að meta það núna en það var ákveðið að halda þessu sem tilraunaverkefni áfram," segir Signý.

„Það er heimilsofbeldi um allt land"

Hún segir góða nýtingu sýna að þörfin fyrir kvennathvarf sé klárlega til staðar á Akureyri. „Athvarfið hefur verið nýtt vel, það hafa verið um 20 í dvöl á þessum tíma og dvalardagar eru komnir upp í 410-415 á þessum tíma og það er nánast allt einhver íbúi í húsinu. Við vitum að þetta er ekki bara bundið við Höfuðborgarsvæðið þannig að það er heimilsofbeldi um allt land og þess vegna er mikilvægt að við séum hér fyrir þær konur sem eru úti á landi á landsbyggðinni."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá opnun athvarfsins í ágúst 2020