Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrengir sífellt að kvikunni neðanjarðar

10.03.2021 - 20:23
Mynd: RÚV / RÚV
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að flekahreyfingar í gegnum árin og aldirnar hafi skapað svigrúm fyrir kviku að flæða inn í og mynda spennu í jarðskorpunni. Fyllist upp í það er ljóst að hún þarf að losna upp á yfirborð.

„Flekahreyfingarnar seinustu áratugi og árhundruð sem hafa skapað spennu á þessum flekaskilum hafa skapað aðstæður fyrir ákveðið pláss í jarðskorpunni fyrir ákveðið magn af kviku. Það er ákveðin stærð, sem er að vísu óþekkt en við fyllum upp í þetta rými með hverjum deginum sem líður. Þannig að það verður erfiðara fyrir nýja kviku eftir því sem líður langt í viðbót í þessarri atburðarrás að koma sér fyrir neðanjarðar,“ segir Freysteinn.

Vísndamenn hafa stuðst við gervihnattamyndir sem berast frá gervitunglum með nokkra daga millibili. Með því að bera saman myndir á milli mælinga með sex daga millibili má sjá hreyfingar í jarðskorpunni  og þannig mæla hreyfingar í jarðskopunni út frá því hvort að yfirborðið er að færast nær eða fjær gervitunglinu. Þetta er hægt að mæla með mikilli nákvæmni. 

Freysteinn útskýrði virkni þessarra mælinga í Kastljósi í kvöld. Einnig var farið yfir hvernig kvikugangur lítur út neðan jarðar. Líkja má honum við blað sem stendur upp á rönd neðanjarðar. Blaðið er um meter á þykkt, og 5 kílómetra hátt og 7 kílómetrar á lengd. Það liggur á um það bil kílómeters til tveggja kílómetra dýpi. Svo virðist sem kvikugangurinn sé að færast nær yfirborði eftir því sem vindur fram.

Kastljósþátt kvöldsins má sjá hér að ofan.