Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir fatlað fólk“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Nýtt álit Umboðsmanns Alþingis gerir mörg hundruð fötluðum einstaklingum kleift að sækja um styrk fyrir hjálpartækjum. Þetta segir formaður Öryrkjabandalagsins. Maður sem lengi hefur viljað kaupa hjálpartæki ætlar að sækja um styrk strax í næstu viku.

Umboðsmaður Alþingis telur að úrskurðarnefnd velferðarmála og Sjúkratryggingum Íslands hafi ekki verið lagalega heimilt að synja Önnu Guðrúnu Sigurðardóttur um styrk fyrir hjálpartæki fyrir hjólastól. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns sem var birt á föstudag, og greint var frá í fréttum á mánudag. Anna Guðrún lést rúmlega tveimur vikum áður en álitið lá fyrir. Forstjóri Sjúkratrygginga segir að stofnunin sé enn að fara yfir álitið, meðal annars með tilliti til fordæmisgildis.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að þessi niðurstaða skipti sköpum fyrir fatlað fólk.

„Ég myndi telja að nú geti fjöldi fólks farið og sótt um hjálpartæki, alls konar hjálpartæki, til þess að nota í sínu daglega lífi. Ekki bara það nauðsynlegasta til þess að komast af, heldur líka til þess að efla þinn þrótt og andlegt heilbrigði og þína heilsu. Sem er mjög mikilvægt fötluðu fólki, ekki síður en öðru fólki,“ segir Þuríður Harpa.

Geturðu slegið á hvað þetta er margt fólk sem bíður eftir búnaði eða óskar þess að fá búnað? 

„Ég myndi halda að það hlaupi á hundruðum ef ekki þúsundum.“

Nú náði Anna Guðrún ekki að fagna þessum sigri, getur þú orðað hversu mikilvæg þessi barátta var?

„Það var mjög sorglegt að hún náði ekki að fagna þessum sigri. En þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir fatlað fólk. Og hún vissi að hennar mál, ef það myndi vinnast, þá væri það fordæmisgefandi. Og að það yrði til þess að efla fatlað fólk í sínu daglega lífi. Hvort sem það væri í frítíma eða bara í öllu sínu daglega lífi,“ segir Þuríður Harpa.

Ekki upp úr öðrum rassvasanum

Á meðal þeirra sem lengi hafa haft augastað á eins búnaði og Anna Guðrún vildi kaupa er Jón Gunnar Benjamínsson. Hann segir að búnaðurinn gefi kost á meiri útivist og meiri líkamsrækt.

„Já um leið og ég sá þetta fyrst, þá sá ég að þetta gæti verið eitthvað fyrir mig. Og eitthvað sem ég myndi hafa gagn af í daglegu lífi og gæti farið út með dóttur minni og konunni minni að hjóla með þessum búnaði,“ segir Jón Gunnar.

En þetta er eitthvað sem þú veigraðir þér við að kaupa af því að þú taldir að þú fengir ekki styrk?

„Já. Og kostnaðurinn við þetta er umtalsverður þannig að maður slítur þetta ekki alveg upp úr öðrum rassvasanum. En þetta breytir stöðunni klárlega mikið, þetta álit umboðsmanns.“

Heldurðu að þú látir vaða núna og sækir um styrk fyrir þessu?

„Ég hugsa það já. Bara strax í næstu viku,“ segir Jón Gunnar.

Gefur tilefni til skoðunar

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands, hvort stofnunin teldi að álit umboðsmanns hefði fordæmisgildi, og hvort álitið hefði áhrif á önnur sambærileg mál. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, sendi eftirfarandi svar:

„Sjúkratryggingar Íslands eru að fara yfir álit Umboðsmanns Alþingis m.a. með tilliti til fordæmisgildis. Sérstök lög gilda um Sjúkratryggingar sem stofnunin er bundin af, en sérhvert mál sem henni berst er skoðað sérstaklega og aðstæður notandans metnar. Sjúkratryggingar telja mögulegt að samræma þurfi texta í reglugerðum sem gilda um þessi mál til að einfalda afgreiðslu þeirra og auka gegnsæi varðandi rétt til greiðsluþátttöku. Álit umboðsmanns gefur tilefni til slíkrar skoðunar.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV