Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Það er ekkert að þér, það er þetta sjúka undirlag“

Mynd: rúv / rúv
Skjálftahrinan á Reykjanesskaga er farin að hafa áhrif á heilsu fólks, heilastarfsemi og líðan. Sérfræðingur segir að skjálftarnir geti vanist og skjálftariðan hopað. 

Sundlar stanslaust

Reykjanesskaginn hefur nú skolfið nær samfleytt í tvær vikur. Það er ekki laust við að ákveðin skjálftaþreyta sé farin að gera vart við sig. Sumir finna fyrir svima. „Sundli bara, stanslaus sjóriða, þetta er óþægilegt, virkilega og alveg sama þó maður leggist niður í sófann, alveg sama ég finn fyrir þessu,“ svona lýsti Arndís Einarsdóttir, íbúi í Hvassahrauni, líðan sinni fyrir helgi. Hún er langt frá því að vera sú eina sem finnur fyrir skjálftariðunni svokölluðu.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Arndís Einarsdóttir.

Skjálftariðan engin ímyndun

Hannes Petersen, prófessor við læknadeild HÍ, hefur mikið rannsakað svima og hreyfiveiki. Hann segir skjálftariðuna sannarlega raunverulega og skylda sjóveikinni. „Við búumst við því og höfum lifað við það alla ævi að undirlagið sem við stöndum á sé hreyfingarlaust. Þarna kemur þessi hæga undiralda og þetta svipar til þeirrar ónotatilfinningar sem fólk finnur fyrir til dæmis þegar það stendur um borð í bát sem er bundinn við bryggju,“ segir Hannes. 

Heilinn á erfitt með að vinna úr upplýsingunum

Hann segir að þetta sé ekki hringsnúningssvimi heldur sundl, þreyta og slen sem fólk finnur fyirr. „Líkaminn á sér sína hægu grunnsveiflu sem er tilkomin vegna rennslis blóðs í æðunum, við drögum inn andann og öndum honum frá okkur og það er fæða að ferðast um meltingarveginn. Allt gerir þetta að við sveiflumst örlítið til, kannski með taktinum 0,1 til 0,2 rið en um leið og það kemur einhver sveifla á þetta undirlag sem á að vera kjurrt, sem er nokkurn veginn í sama takti, þessi hæga undiralda. Þá fer heilinn að spyrja sig, er þetta mín grunnhreyfing eða er þetta eitthvað annað og það nægir til að setja heilann úr skorðum.“

Hannes segir riðuna til komna vegna þessa ruglings, heilinn viti ekki hvernig hann á að vinna úr upplýsingunum sem honum berast. 

Andleg líðan getur haft áhrif

Það er persónubundið hversu næmt fólk er fyrir þessum hreyfingum. Hannes segir að hræðsla eða kvíði geti stundum magnað þessa skynjun upp, þá finni fólk sem starfar í háhýsum þar sem hreyfingin tekur lengri tíma meira fyrir þessu. Hann segir að með tímanum geti fólk vanist skjálftunum og við það hopi skjálftariðan. „Eitt af lykilatriðunum er að venja sig við þetta, ég ætla ekki að óska þess að skjálftahrinan verði langvarandi en það er lykilatriðið og svo bara að slaka á og átta sig á því að það er ekkert að þér, það er þetta sjúka undirlag.“

Viðra áhyggjur við lækna

Óskar Reykdalsson, forstöðumaður heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, gerði örkönnun meðal heimilislækna fyrir fréttastofuna og flestir höfðu orðið varir við áhyggjur eða vanlíðan meðal skjólstæðinga. Fólk kemur kannski ekki gagngert á heilsugæslu vegna skjálftanna en sumir segjast orðnir vansvefta eða finna fyrir óróleika. Svipað er uppi á teningnum á heilsugæslunni í Grindavík og sumir þiggja róandi. Yfirhjúkrunarfræðingur hvetur fólk til að hugsa vel um sig og fara úr bænum ef völ er á til að hvíla sig aðeins á hristingnum.

Rúmlega fimmtungur Suðurnesjabúa mjög áhyggjufullur

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem var birtur í dag, kemur fram að rúmlega 85% landsmanna segjast hafa fundið fyrir jarðskjálftum síðustu daga eða vikur. Tólf prósent landsmanna segja skjálftana valda sér miklum áhyggjum en það á við um 22% íbúa á Suðurnesjum. Helmingur landsmanna hefur gert ráðstafanir til að forðast eignatjón. 

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Skjálftarnir síðustu tvær vikur skipta þúsundum.

Viðra áhyggjur við lækna

Óskar Reykdalsson, forstöðumaður heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, gerði örkönnun meðal heimilislækna fyrir fréttastofuna og flestir höfðu orðið varir við áhyggjur eða vanlíðan meðal skjólstæðinga. Fólk kemur kannski ekki gagngert á heilsugæslu vegna skjálftanna en sumir segjast orðnir vansvefta eða finna fyrir óróleika. Svipað er uppi á teningnum á heilsugæslunni í Grindavík og sumir þiggja róandi. Yfirhjúkrunarfræðingur hvetur fólk til að hugsa vel um sig og fara úr bænum ef völ er á til að hvíla sig aðeins á hristingnum.

Rúmlega fimmtungur Suðurnesjabúa mjög áhyggjufullur

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem var birtur í dag, kemur fram að rúmlega 85% landsmanna segjast hafa fundið fyrir jarðskjálftum síðustu daga eða vikur. Tólf prósent landsmanna segja skjálftana valda sér miklum áhyggjum en það á við um 22% íbúa á Suðurnesjum. Helmingur landsmanna hefur gert ráðstafanir til að forðast eignatjón.