Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stefnir í spennandi slagi um efstu sæti á listum

10.03.2021 - 22:19
Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjáflstæðisflokksins, býður sig fram í fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi gegn Haraldi Benediktssyni núverandi oddvita. Þá tekur Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, oddvitasæti Samfylkingarinnar í Kraganum af Guðmundi Andra Thorssyni. Fimm sækjast eftir fyrsta sætinu hjá Vinstri grænum í Suðurkjördæmi.

Alþingiskosningar verða að óbreyttu 25. september og nú stendur sem hæst baráttan innan flokkanna um efstu sætin. Prófkjör Pírata stendur nú yfir og lýkur á laugardag og þá á að liggja fyrir hverjir skipa toppsætin. Kosningin er rafræn, 3.300 eru á kjörskrá og hefur fjölgað um 500 frá áramótum.

Hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi býður Þórdís Kolbrún, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sig fram gegn sitjandi oddvita Haraldi Benediktssyni en hún var í öðru sæti síðast.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki gefið upp hvort hann sækist eftir oddvitasætinu hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi sem hann vermir nú.

Hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi hafa nú þegar gefið kost á sér í fyrsta sætið Páll Magnússon núverandi oddviti, Vilhjálmur Árnason alþingismaður og Guðrún Hafsteinsdóttir ein af eigendum Kjöríss í Hveragerði.

Hjá Vinstri grænum í Suðurkjördæmi losnaði oddvitasætið þegar Ari Trausti Guðmundsson tilkynnti að hann ætlaði að hætta þegar kjörtímabilið verður á enda. Fimm hafa tilkynnt að þeir sækist eftir fyrsta sætinu og það eru þau Almar Sigurðsson ferðaþjónustubóndi, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi,  Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri í Sandgerði, Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður og Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Hjá Vinstri grænum í Suðvesturkjördæmi losnaði oddvitasætið þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk úr flokknum. Nú þegar hafa tilkynnt um framboð í fyrsta sæti þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður og Una Hildardóttir varaþingmaður.

Samfylkingin ákveður á morgun hverjir skipa efstu sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi og þar ætlar Þórunn Sveinbjarnardóttir að stíga á ný inn á hið pólitíska svið, en hún var þingmaður og ráðherra, og taka fyrsta sætið. Guðmundur Andri Thorsson, núverandi oddviti, fer í annað sætið. 

Þá ætlar Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, að gefa kost á sér til framboðs fyrir Flokk fólksins og það ætlar líka Tómas Andrés Tómasson, betur þekktur sem Tommi í Hamborgarabúllunni að gera.

Fréttastofan heldur áfram umfjöllun um baráttuna um toppsætin á næstunni.