Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nærri 50 skjálftar stærri en 4 síðustu tvær vikur

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Tvær vikur eru í dag frá því að skjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst. Síðan á miðvikudagsmorgninum 24. febrúar hafa um 34.000 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þar af 429 stærri en þrír, 48 stærri en fjórir og sex stærri en fimm, að þeim sem kom í nótt meðtöldum.

Og jörðin heldur áfram að skjálfa. Í nótt, klukkan rúmlega 3, kom skjálfti, 5,1 að stærð og fannst hann vel víða á suðvesturhorninu. Í dag eru tvær vikur síðan hrinan byrjaði og hafa mælst um 34.000 skjálftar á svæðinu síðan þá, sem gera um 2.500 á sólarhring.

Fannst mjög víða 

Veðurstofan fékk tilkynningar um að stóri skjálftinn í nótt hafi fundist austur í Fljótshlíð og vestur í Búðardal og vakti hann eflaust upp marga íbúa Reykjanesskagans og höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt samantekt Veðurstofunnar hafa 33.800 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaganum síðan að þessi hrina byrjaði, miðvikudaginn 24. febrúar. Af þessum tæplega 34.000 skjálftum eru um 430 stærri en þrír, 48 stærri en fjórir og sex stærri en fimm, að þeim sem kom í nótt meðtöldum. Hann varð  2,4 kílómetra suður af Fagradalsfjalli.

Fín lína á milli smáskjálftavirkni og óróa

Töluverð smáskjálftavirkni mældist við Fagradalsfjall í nótt en enginn gosórói, en samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi Veðurstofunnar er oft fín lína þar á milli. Engar afgerandi breytingar í GPS gögnum er að merkja eftir nóttina. 

Í gær mældust um 2900 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, sá stærsti 4,0 að stærð klukkan rétt rúmlega ellefu í gærkvöldi. Í gærmorgun uppúr klukkan 5 jókst virknin eftir rólegan sólahring þegar að órói greindist á svæðinu. Og síðan á miðnætti í nótt hafa 24 skjálftar mælst sem eru stærri en þrír. 

Virknin, líkt og i gær, er að mestu bundin við suðurhluta Fagradalsfjalls en nokkrir skjálftar mældust rétt norðaustur af Grindavík í nótt, sá stærri M3.9 kl. 04:35 og við örfáir við Trölladyngju.