Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Holtavörðuheiði lokað vegna veðurs

10.03.2021 - 13:53
Innlent · Ófærð · Óveður · veður
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd:
Storm- og hríðarviðvörun hefur verið gefin út fyrir allt norðan- og vestanvert landið frá Faxaflóa til Norðurlands vestra. Færð hefur þegar spillst á mörgum fjallvegum norðan- og vestanlands. Búið er að loka veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Holtavörðuheiði og Fljótsheiði.

Leiðindaveður er á norðan- og vestanverðu landinu með tilheyrandi hvassviðri og snjókomu. Þá er gul viðvörun í gildi á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að komið sé vetrarveður í kortin núna og að norðanáttin standi alveg fram á helgi. „Þó það fari heldur að draga úr henni, en svo eftir helgi, á mánudag þá er spáð vaxandi suðaustan átt með hlýindum og slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands,“ segir Þorsteinn.

Búast má við áframhaldandi ofankomu á norðurhelmingi landsins og viðbúið að færð spillist á fjallvegum. Veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi hefur verið lokað, einnig Holtavörðuheiði og Fljótsheiði. Ófært er um Öxi, á Þröskuldum, Dynjandisheiði og Klettshálsi. Þungfært og skafrenningur er á Sigufjarðarvegi og óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi. Óvissustig er vegna snjóflóðahættu er einnig í Ólafsfjarðarmúla.

Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut og hálka á Hellisheiði. Í Þrengslum er hálka og skafrenningur. Lokað er um Kjalarnes um óákveðinn tíma því skyggni þar er slæmt. Hægt er að fara hjáleið um Mosfellsheiði, Kjósarskarð og Hvalfjörð en þar er vetrarfærð og lítið skyggni. Sterkur hliðarvindur er á Mosfellsheiði og því varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.