Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hættustig vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla

10.03.2021 - 15:46
Mynd með færslu
Ólafsfjarðarmúli. Mynd úr safni. Mynd:
Hættustig vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla tekur gildi nú klukkan 16:00 og verður veginum lokað. Á Siglufjarðarvegi er óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu. Veginum um Kjalarnes hefur verið lokað um óákveðinn tíma vegna slæms skyggnis.

Hægt er að fara hjáleið um Mosfellsheiði og Kjósarskarð en þar er vetrarfærð og lítið skyggni. Sterkur hliðarvindur er á Mosfellsheiði og því varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Það er einhver vetrarfærð í flestum landshlutum og víða ekkert ferðaveður. Hvassviðri er um allt vestanvert landið og víða skafrenningur og blint. Veðurstofan er með gular veðurviðvaranir í gildi fyrir vestan- og norðvestanvert landið. Snjóþekja og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ekkert ferðaveður. Ófært er á Klettshálsi og lokað á Þröskuldum, Dynjandisheiði og víðar.  

Hviður á Kjalarnesi verða 35 til 40 metrar á sekúndu, samkvæmt spá veðurfræðings Veðurstofunnar, í allan dag og til klukkan 9 í fyrramálið. Sunnan undir Hafnarfjalli og í Melasveit er líka hvasst og blint á köflum vegna skafrennings.