Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Frumleg framsetning á einu athyglisverðasta dómsmálinu

Mynd: Sunnefa / Tjarnarbíó

Frumleg framsetning á einu athyglisverðasta dómsmálinu

10.03.2021 - 10:09

Höfundar

Snæbjörn Brynjarsson leiklistargagnrýnandi Víðsjár fjallar um leiksýninguna Sunnefu sem leikhópurinn Svipir frumsýndi í leikstjórn Þórs Tulinius í Tjarnarbíói í síðustu viku. Verkið fjallar um Sunnefu Jónsdóttur sem var tvisvar dæmd til dauða fyrir blóðskömm á fyrri hluta 18. aldar en reis upp gegn yfirvaldinu.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Átjánda öldin er ekki sú glæstasta úr sögu Íslands. Litla ísöld sem hófst hundrað árum áður hafði gert eyjuna okkar nærri óbyggilega og þessi versnandi veðrátta og öfgafull ofsatrú í kjölfar siðaskiptanna virðist hafa dregið fram það versta í forfeðrum okkar. Í það minnsta er það myndin sem maður fær úr heimildardramanu Sunnefa, sem frumsýnt var í Tjarnarbíói nýverið, þegar þær Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir stigu á svið til að segja sögu Sunnefu Jónsdóttur, sem fæddist um miðbik átjándu aldar. Um leið gáfu þær okkur innsýn í lífið í landi sem virðist líkara Sádí-Arabíu, ef Sádí Arabía væri gaddfreðin og bláfátæk, en Íslandi í dag, og er þó engu að síður staðurinn þar sem forfeður okkar bjuggu.

Leikverkið snýst um lengsta dómsmál í sögu Íslands. Það fjallar um konu sem bara á unglingsaldri var dæmd til dauða ekki einu sinni heldur tvívegis, en flæktist þó um með þennan dóm í dómskerfinu í meira en áratug. Sagan er ótrúleg en engu að síður sönn en margt enn á huldu. Í nútímaskilningi væri Sunnefa seint álitinn glæpamaður, frekar þolandi en gerandi, og frekar viðfang félagsmálaþjónustu en dómskerfisins. Hún var ásökuð um að hafa eignast tvö börn með yngri bróður sínum, sem þá var bara fjórtán ára og hún sjálf sextán, og fyrir það átti að hálshöggva hann og drekkja henni, en þó er ekki allt sem sýnist í þessu máli.

Tinna Sverrisdóttir er í hlutverki Sunnefu og segir sögu hennar, og Margrét Kristín Sigurðardóttir tekur á sig ýmis önnur hlutverk. Þrátt fyrir að það séu leiknar og oft á tíðum dramatískar senur sviðsettar, er verkið þó mun líkara heimildaleikhúsi heldur en einhvers konar baðstofudrama, þó svo efniviðurinn gæti hæglega hentað í slíkan leik. Í frekar kaótískri sviðsmynd Egils Ingibergssonar eru þrír skermar þar sem er varpað upp teikningum af ýmsum persónum og er það nokkuð snjöll og skemmtileg leið til þess að vekja þessa sýslumenn, bóndadurga, húsfreyjur og húskarla til lífs, en teikningarnar gerði Móeiður Helgadóttir. Þór Tulinius leikstýrði; Beate Stormo hannaði ágæta og fjölhæfa búninga fyrir verkið; og tónlist og hljóðmynd er sköpuð af leikkonunum. Margrét Kristín samdi lagabúta og lék á mörg ólík hljóðfæri í sýningunni, auk þess sem leiktextarnir sjálfir voru samdir af leikhópnum með Árna Friðrikssyni.

Í sýningunni er vel farið yfir nánast allar staðreyndir sem vitað er um í máli Sunnefu og reynt að átta sig á hvað raunverulega gerðist því það er nokkuð ljóst alveg frá upphafi að sifjaspellið sem hún og bróðir hennar eru ásökuð um fær varla staðist nánari skoðun. Drengurinn, Jón, er fjórtán ára og Sunnefa sextán ára, og frekar ólíklegt að hann hafi barnað systur sína. Leikhópnum virðist líta svo á að líklegri sökudólgur í þessu máli sé stjúpfaðir stúlkunnar, sem fyrst reynir að fá bónda úr nágrenninu til að gangast við barninu, en þegar það gengur ekki fær hann héraðsprestinn til að þvinga fram játningu sextán ára stúlkunnar. Að einhverju leyti byggist atburðarásin á getgátum, en við vitum að Sunnefa endar í haldi á Skriðuklaustri þar sem hún verður ólétt í annað sinn, í þetta sinn af völdum sýslumannsins Hans Wiium.

Eða það er allavega það sem kemur fram í vitnisburði hennar á Þingvöllum nokkrum árum síðar, þó svo sýslumaðurinn hafi þvingað hana til að ásaka bróður sinn enn eina ferðina. Í gegnum þetta drama kynnumst við nokkrum öðrum dómsmálum, og heyrum sögur kvenna sem voru látnar sauma pokana sem þeim var síðan drekkt í. Sýningin er mjög fróðleg og fer yfir sögur sem oft eru vanræktar. Við lítum svo á í dag að réttarkerfi okkar sé upplýstara og betra, en að því sögðu er oft erfitt fyrir þolendur kynferðisofbeldis að fá sanngjarna meðferð í dómskerfinu, og ekki síður erfitt að fá valdafólk til að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Maður þyrfti ekki annað en að rifja upp uppreist æru-málið frá árinu 2017, sem minnir um margt á tilraunir Hans Wiium til að endurheimta sína æru og valdastöðu í samfélaginu. Mál Sunnefu á einnig ýmislegt sameiginlegt með Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Sunnefa er ung, nýbökuð móðir sem er sett undir mikla andlega pressu í einangrun og fengin til að játa á sig glæpi, sem leiðir af sér mál sem velkist um í dómskerfinu áratugum saman. Þetta þýðir auðvitað ekki að engar framfarir hafi átt sér stað síðan árið 1700. Þetta er einungis áminning um að réttvísin verður seint fullkomnuð.

Tinna og Margrét stóðu sig vel í sínum hlutverkum. Þær nutu sín best í karakter, minna þegar þær voru sjálfar að kommenta á söguna. Þó svo tónlistin væri kannski ekki mjög eftirminnileg þá var sniðugt að hafa lifandi flutning. Margrét skapaði skemmtilega stemningu með bæði hefðbundnum og óhefðbundnum leiðum. Á köflum varð sýningin eilítið eintóna, og sennilega síst í löngum kafla þar sem danska sýslumannsfrúin í Reykjavík er áberandi persóna, en danskur hreimurinn eyðilagði annars raunsæislegan blæ þessa heimildardrama. Þrátt fyrir það er verkið á heildina litið mjög vel heppnað, og enginn sögu-unnandi ætti að láta það fara fram hjá sér. Einu athyglisverðasta dómsmáli í sögu Íslands eru gerð góð skil í sýningu sem nálgast það á frumlegan og hugvitsamlegan hátt í hljóðmynd, myndmáli og dramatískri framsetningu.