Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Færri endurráðnir á veitingastaði vegna nýrra smita

10.03.2021 - 21:16
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Veitingamenn óttast að missa viðskipti vegna nýrra kórónuveirusmita. Atvinnuleysi minnkaði í febrúar og er það í fyrsta skipti í níu mánuði sem fækkar í hópi atvinnulausra. Fulltrúi í stjórn Samtaka fyrirtækja í veitingarekstri segir að veitingamenn hafi verið við það að endurráða fólk en eftir að nýju smitin greindust hafi þau áform verið látin bíða.

Loðnuvertíðin og aukin umsvif í veitingarekstri eru helstu ástæður þess að atvinnuleysi var lítið eitt minna í febrúar en mánuðinn á undan. Atvinnuleysi mælist nú 11,4 prósent eða núll komma tveimur prósentum minna en í janúar. Þetta er í fyrsta skipti frá í maí í fyrra sem dregur úr atvinnuleysi.

„Við finnum fyrir mjög miklum mun. Það er bara þannig að um leið og smitum fer fækkandi þá eykst eftirspurn eftir borðum,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, fulltrúi í stjórn Samtaka fyrirtækja í veitingarekstri.

Ekki hefur þó reynst unnt að endurráða allt það fólk sem sagt hefur verið upp í faraldrinum.

„Ég veit að mikið af veitingastöðunum voru að setja í stellingar að fara að fjölga fólki en í ljósi nýjustu fregna um að það séu að koma aftur upp smit þá auðvitað heldur fólk að sér höndum og við erum mjög áhyggjufull út af því. Við  höfum líka heyrt fréttir af dagbókum lögreglu að fólk sé að brjóta sóttkví. Þannig að við höfum kallað eftir því að það yrði bara mjög strangt eftirlit með þeim sem eru að koma til landsins og þannig getum við haldið landinu veirufríu meðan við erum að komast í gegnum þessar bólusetningar,“ segir Hrefna.
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV