Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki sloppin fyrir horn þrátt fyrir ánægjulegar tölur

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Við erum ekki alveg sloppin fyrir horn en það er ánægjulegt að fá þessar tölur. En þar sem það tekur nokkurn tíma fyrir smit að greinast eftir að smit hefur orðið og eins fyrir fólk að veikjast sem hefur smitast, þá þurfum við að láta nokkra daga líða,“ segir Þórólfur. Ekkert smit greindist innanlands í gær en á síðustu dögum hafa fjórir greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar innanlands, utan sóttkvíar. Smitin tengjast landamærasmiti.

Ótímabært að tala um bylgju

Þórólfur segir ekki tímabært að tala um bylgju: „Við erum að tala um hópsmit með fimm aðilum, einn frá landamærunum og svo fjórir út frá því. Þannig að þetta er lítið hópsmit en ef þetta fer að breiðast meira út og við förum að greina smit sem við getum ekki rakið almennilega, þá fer maður að vera hræddari við að einhver bylgja sé í uppsiglingu,“ segir hann. Smitin sem hafi greinst síðustu daga séu öll af völdum breska afbrigðisins og tengist: „Þetta er allt sami uppruninn getum við sagt.“

Þórólfur vinnur að minnisblaði um næstu skref í sóttvarnaaðgerðum en segist ekki telja ráðrúm til að slaka á sóttvarnareglum eins og staðan er. „En vonandi greinum við ekki fleiri smit í samfélaginu á næstu dögum þannig að við getum haldið okkur við núverandi ástand,“ segir hann.

Smitrakning gengið vel

Er vitað hvar þeir sem greindust í fyrradag smituðust?

„Já, við vitum það nokkurn veginn en samt vitum við ekki nákvæmlega á hvaða stað, hvaða punkti eða hvaða hnappi viðkomandi smitaðist. En við vitum hvar nándin er og hvar smithættan er. Við vitum að það voru þarna snertifletir á milli þar sem þetta hefur vafalaust gerst. Og við sjáum það á raðgreiningunni að þetta er sama veiran.“

Í sóttkví eftir heimsenda pítsu

Í gær var greint frá því að pítsusendill hjá Pizzunni í Kópavogi hefði greinst með COVID-19.

Þurftu þeir sem fengu pítsu senda frá pítsusendlinum sem greindist að fara í sóttkví?

„Það er búið að hafa samband við þá, ég held að þeir hafi farið í sóttkví, já,“ segir Þórólfur. 

Skima tónleikagesti aftur

Nokkrir tugir þurftu að fara í sóttkví vegna smitanna tveggja sem greindust um helgina, til dæmis starfsfólk og sjúklingar á Landspítalanum og nokkrir tónleikagestir í Hörpu á föstudagskvöld. Rúmlega 700 tónleikagestum var boðið upp á skimun á mánudag og verða skimaðir á ný á morgun. 

Skimun á tónleikagestum fór fram mjög skömmu eftir tónleikana, var sú skimun marktæk?

„Já, en hún er tekin svolítið snemma, tveimur til þremur dögum eftir tónleikana. Hún er alveg marktæk en tekin í fyrsta falli, það eru margir sem greinast jákvæðir á þessum tíma ef þeir hafa smitast. En til þess að vera viss viljum við fá skimun á morgun líka.“