Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Atvinnuleysi dróst saman í fyrsta sinn síðan í maí

10.03.2021 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Atvinnuleysi var 11,4 prósent á Íslandi í febrúar og dróst saman úr 11,6 prósentum í janúar. Hingað til hefur atvinnuleysi aukist stöðugt frá því í maí. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir samdráttinn fyrst og fremst skýrast af því að loðnuvertíðin sé byrjuð og að veitingaþjónusta hafi hrokkið í gang þegar kórónuveirusmitum fór að fækka.

„Það er byrjuð loðnuvertíð í fyrsta lagi. Og svo hefur verið losað um samkomubann svo að veitingaþjónustan hefur tekið við sér og ferðaþjónustan hefur tekið við sér innanlands. Það er kannski verið að ráða aðeins inn í ferðaþjónustufyrirtækin,“ segir Unnur. 

Atvinnuleysi minnkaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem það stóð í stað. 

Oftast eykst atvinnuleysi í febrúar

„Þetta er ekki mikil lækkun en þetta er meiri lækkun er virðist vera því oftast í febrúar hefur atvinnuleysi staðið í stað eða aukist aðeins. Svo þetta eru býsna góðar fréttir miðað við það sem á undan hefur gengið,“ segir Unnur.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í mars og verði á bilinu 10,9 prósent til 11,3 prósent. „Það er auðvitað háð bólusetningum og hversu vel tekst að halda faraldinum niðri og hversu vel gengur í löndunum í kringum okkur,“ segir Unnur. 

Duttu margir út af bótaskrá og getur það haft áhrif á hlutfallið?

„Það hafa síðastliðna tvo mánuði verið í kringum hundrað sem hafa lokið bótarétti. Það er ekki eina skýringin. Þetta er fyrst og fremst loðnan og veitingaþjónustan. Og reyndar bjartsýni, fólk er farið að fara í leikhús og út að borða og farið að ferðast innanlands,“ segir hún. 

Hátt í fimm þúsund án vinnu í heilt ár

Alls voru 21.352 manns atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok febrúar og 4.331 á hlutabótum, eða samtals 25.683 manns. Atvinnuleysi í minnkuðu starfshlutfalli í febrúar var 1,1 prósent og samanlagt atvinnuleysi því 12,5 prósent.

4.719 manns höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok febrúar og þeim fjölgaði um 200 í síðasta mánuði. Þeir eru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra.