Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Áfram líkur á gosi

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Áfram þarf að gera ráð fyrir að eldgos geti brotist út á Reykjanesskaga, segja sérfræðingar Veðurstofunnar. Virkni í morgun hefur verið bundin við suðurhluta kvikugangsins sem er að öllum líkindum til marks um stækkun hans. Skjálfti upp á 5,1 varð í nótt og í morgun kom annar snarpur, 4,6 að stærð.

Rætt var við Bjarka Kaldalóns Friis, jarðvársérfræðing hjá Veðurstofunni í hádegisfréttum og var hann spurður að því hvort ekki væru auknar líkur á eldgosi eftir þessa miklu virkni í nótt og í morgun. „Já, ef það heldur áfram lengi, þá getur það auðvitað gert það en það getur auðvitað storknað uppi í ganginum líka og þá bara stoppar þetta en við vitum það auðvitað ekki enn þá,“ segir Bjarki. 

Eins og staðan er núna er virknin enn bundin við Fagradalsfjall. Rannsóknarhópur skoðar í dag myndir af svæðinu sem bárust í gær og verður niðurstöðu að vænta síðar í dag.

Ekki eru vísbendingar um að goshætta sé í grennd við byggðina í Grindavík, samkvæmt þeim sviðsmyndum sem unnið er samkvæmt núna, að sögn Bjarka. Vel sé fylgst með þróuninni.