Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

12 prósent landsmanna hafa miklar áhyggjur af skjálftum

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Rúmlega 85 prósent landsmanna segjast hafa fundið fyrir jarðskjálftum síðustu daga eða vikur. Ríflega helmingur landsmanna segist hafa fundið mikið fyrir skjálftum en rúmlega 37 prósent segjast hafa fundið lítið eða ekkert fyrir þeim. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Nær 88 prósent Suðurnesjamanna segjast hafa fundið mikið fyrir skjálftunum og næstum 63 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þá hafa skjálftarnir fundist vel á Vesturlandi; rúmlega 42 prósent íbúa á Vesturlandi segjast hafa fundið fyrir þeim. Rúmlega fjórðungur fólks á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra hefur fundið fyrir þeim og nær 14 prósent á Suðurlandi. Aðeins sex prósent hafa fundið mikið fyrir skjálftum á Norðurlandi eystra en enginn á Austurlandi.

 

Samkvæmt könnuninni virðist skjálftanæmni minnka þó nokkuð með aldri. 71 prósent fólks yngra en 30 ára hefur fundið mikið fyrir þeim en aðeins 32 prósent þeirra sem eru 60 ára og eldri. Hér hlýtur þó að hafa áhrif að hlutfall yngra fólks er hærra á suðvesturhorninu en annars staðar á landinu. 

 

Tólf prósent landsmanna hafa miklar áhyggjur af skjálftum og flestir þeirra eru búsettir á Suðurnesjum. Konur eru líklegri en karlar til að segja skjálftana hafa valdið sér áhyggjum; 42 prósent kvenna hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur en aðeins 24 prósent karla. 

Samkvæmt könnuninni hefur helmingur landsmanna reynt að tryggja að húsmunir verði ekki fyrir tjóni eða valdi tjóni, frekar eldra fólk en yngra, og tæpur þriðjungur hefur rifjað upp rétt viðbrögð við skjálftum, mun frekar konur en karlar; 37 prósent kvenna og 17 prósent karla.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var dagana 5. — 9. mars 2021. Þátttökuhlutfallið var 44,8 prósent og úrtakið 1.600 manns 18 ára eða eldri af öllu landinu, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.