Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 700.000 COVID-19 dauðsföll í Rómönsku Ameríku

epa09052688 A person walks after finishing the burial of a victim of COVID-19 at the Viola Formosa cemetery in Sao Paulo, Brazil, 04 March 2021. Brazil, one of the countries most affected by the pandemic in the world, registered 1,699 deaths from covid-19 in the last 24 hours, which is equivalent to one death every 50 seconds, the Government reported on 04 March.  EPA-EFE/Fernando Bizerra Jr
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 700.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í rómönsku Ameríku frá því að farsóttin hóf þar innreið sína. Þetta er niðurstaða samantektar AFP-fréttastofunnar á opinberum gögnum heilbrigðisyfirvalda í Mexíkó og 33 ríkjum í Mið- og Suður-Ameríku og Karíbahafi. Tvö af hverjum þremur dauðsföllum í þessum heimshluta hafa orðið í tveimur löndum; Brasilíu og Mexíkó.

Í Brasilíu hafa um 266.000 dauðsföll verið rakin til COVID-19 en 191.000 í Mexíkó. Einungis í Bandaríkjunum hafa fleiri látist úr COVID-19 en í þessum tveimur löndum, eða ríflega 525.000 manns. Þó ber að hafa í huga að mjög miklar líkur eru taldar á að mun fleiri hafi dáið úr COVID-19 löndunum tveimur en opinberar tölur segja til um, sérstaklega í Brasilíu.

Yfir 11 milljónir smita hafa greinst í Brasilíu en rúmlega 2,1 milljón smita í Mexíkó. Í heiminum öllum hafa nú rúmlega 117 milljónir manna greinst með COVID-19 og um 2,6 milljónir dáið úr sjúkdómnum svo vitað sé.